Barnvænn kjúklingaréttur

Barnvænn kjúklingaréttur

 • Servings: 8-10 manns
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fékk ég fyrir mörgum árum hjá Þórunni.  Hann er sérstaklega vinsæll hjá börnum og hentar ágætlega á veisluborðið eða sem helgarréttur.

Forvinna

Kjúklingana má steikja daginn áður eða fyrr um daginn. Gott að hreinsa af beinunum þegar þeir eru orðnir kaldir.  

Ath. Uppskriftina má auðveldlega helminga og þá passar hún í eitt fat og dugar fyrir 4 – 5

Hráefni

Kjúklingur

 • 2 heilir kjúklingar
 • Kjúklingakrydd
 • Pipar og salt
 • Paprikukrydd

Sósa

 • 3 -3½ dl matreiðslurjómi
 • 1 msk kjúklingakrydd
 • 100 g rjómaostur
 • 3 msk ljós sósujafnari

Viðbótarhráefni

 • U. þ.b. 200 g rifinn ostur
 • Box af ferskum sveppum

Verklýsing

Kjúklingur

 1. Ofninn hitaður í 180°C
 2. Kjúklingarnir kryddaðir með salti, pipar, papriku og kjúklingakryddi (ágætt að þerra kjúklingana með eldhúspappír áður en þeir eru kryddaðir)
 3. Kjúklingarnir eru settir í hönnupotta (lokið sett á) eða steikingarpoka, lokað fyrir og klippt gat ofan á pokanum
 4. Kjúklingarnir steiktir – tíminn fer eftir stærð þeirra (u.þ.b. 45 – 60 mínútur á kíló)
 5. Kjúklingarnir látnir kólna

 

Sósa

 1. Soðið, sem safnast í pottinum eða pokanum, er sett í pott (gott að sigta soðið). Ágætt að setja nokkra ísmola út í og láta kólna aðeins til að taka mestu fituna frá – klakar og hörnuð fita tekið úr pottinum. Athuga að þegar kjúklingasoðið (sem á að vera eftir) kólnar verður það hlaupkennt
 2. Soðið er hitað að suðu ásamt rjómanum og kjúklingakryddi
 3. Rjómaosturinn settur út í og hrært þar til hann hefur jafnast út (bráðnað)
 4. Sósujafnaranum bætt út í og suðan látin koma upp – hrært reglulega

 

Samsetning

 1. Kjúlingarnir eru teknir í sundur, bein- og brjóskhreinsaðir og kjötið sett í eldfast mót (eitt mjög stórt eða tvö minni)
 2. Sveppir eru skornir niður og dreift yfir
 3. Sósunni hellt jafnt yfir
 4. Osti stráð yfir
 5. Bakað neðarlega í ofninum við 200°C í 20 mínútur

Meðlæti

Hrísgrjón, salat og brauð.

Til viðbótar

 • Hef stundum sett í tvö eldföst mót og sleppt sveppum á öðru fyrir börn sem vilja þá ekki.
 • Einnig hægt að setja annað grænmeti eins og t.d. brokkólí í réttinn.

Geymsla

Þetta má geyma í kæli eftir samsetningu og baka seinna um daginn eða daginn eftir. Geymist í nokkra daga eftir eldun.

 

 

Kjúklingar kryddaðir og settir í poka eða…

 

IMG_6867

steiktir í hönnupottum

Kjúklingur hreinsaður

IMG_6868

Sósa í vinnslu

IMG_6869

 

Uppskriftin þarf að fara í tvö föt

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*