Kalkúnabringur eldaðar í leirpotti – í uppáhaldi

Kalkúnabringur með fyllingu

  • Servings: 5 – 6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Uppskriftin kemur frá Önnu Kristínu, vinkonu minni, en rétturinn er í miklu uppáhaldi á heimilinu. Kalkúnaboð Önnu Kristínar eru algjörlega ómissandi en þegar hún tók upp á því að flytja til útlanda var ekkert annað í stöðunni en að fá uppskriftina og reyna eftir fremsta megni að líkja eftir hinu árlega kalkúnaboði.  Ég lagði ekki í heilan kalkún en útbjó kalkúnabringur og tókst allt með prýði. Anna Kristín er sem betur fer flutt heim aftur og nú eldar hún kalkúnabringur í Hönnupotti 🙂

Forvinna

Hægt að útbúa fyllinguna fyrr um daginn – betra að bíða með vínberin þar til í lokin.

Hráefni

Kalkúnn

Ath: Yfirleitt nota ég ferskar kalkúnabringur en það er einnig mjög gott að hafa kalkúnaskip (þá er hluti af bringubeinunum með). Ef notaðar eru kalkúnabringur má alveg setja 2 – 3 í hvern pott

  • U.þ.b. 1½ kg kalkúnabringur
  • Smjör
  • 2 epli – skorin í litla bita
  • Kalkúnakrydd t.d. frá Kryddhúsinu

 

Kalkúnafylling (má gera ráð fyrir afgangi )

  • 1 stk heimilisbrauð (skorpan skorin af og brauðið skorið í teninga)
  • 2 laukar – fínt saxaðir
  • 300 g sellerí – skorið í þunnar sneiðar
  • 300 g blá vínber – skorin í tvennt – steinhreinsuð
  • 325 g smjör
  • 300 g sveppir – fínt saxaðir
  • Ferskt timjan – magn eftir smekk (u.þ.b. 2 – 3 msk)
  • Ferskt rósmarín (setti u.þ.b. 1 msk)
  • Fersk salvía – magn eftir smekk (u.þ.b. 2 msk)
  • Salt og pipar

 

Sósa 

Ath. Þegar kjúklingabringurnar eru eldaðar í lokuðum potti með epli í botninum kemur mjög gott soð sem upplagt er að hella í sósuna.  Þá þarf minna magn af annarri sætu þar sem gott sætubragð kemur úr eplunum

  • ½ l kalkúnasoð (helst) eða kjúklingasoð (kraftur og vatn)
  • 1 dl dökkur sósujafnari (í stað sósujafnara má gera smjörkúlu þ.e. blanda saman bræddu smjöri og hveiti)
  • 2 dl rjómi/matreiðslurjómi
  • 1 tsk sæta t.d. sulta/rifsberjahlaup (má sleppa)
  • Ögn af sojasósu
  • Salt og pipar
  • Safinn sem safnast í pottinum

Verklýsing

Kalkúnabringa/ur

  1. Ofninn hitaður í 180°C (blásturstilling)
  2. Niðuskorin epli sett í botninn á pottinum ásamt klípum af smjöri. Nota stundum tvo potta ef með þarf.  Bringurnar lagðar yfir og smjörbitar settir undir og ofan á bringuhúðina. Lokið sett á og inn í ofninn. Venjulega má gera ráð fyrir klukkutíma á hvert kíló. Á hálftíma fresti er upplagt að taka pottinn úr ofninum og ausa safanum í botninum yfir
  3. Þegar kjarnhitamælirinn er rétt kominn yfir 70°C eru bringurnar tilbúnar.  Ef vantar aðeins upp á litinn ofan á má stilla á grill, taka lokið af og láta pottinn undir í nokkrar mínútur.  Ath. þegar kjarnhitinn hefur náð 70°C er best að lækka hann í 65° – 70°C sérstaklega ef ekki á að borða fyrr en eftir einhvern tíma.  Það er lítil hætta á að kjötið ofeldist á þessum hita þó svo að töluvert sé í að sest skuli að borðum (hef látið kjötið bíða í pottunum á þessum hita  alveg í 2 klukkustundir)

 

Kalkúnafylling

  1. Laukur, sveppir og timjan hitað í smjöri í potti/stórri pönnu – á meðalhita og látið malla aðeins
  2. Selleríi bætt við
  3. Kryddið og brauðið blandað saman og sett í pottinn
  4. Látið malla í góðan tíma þannig að brauðið blandist vel saman við
  5. Að lokum eru vínberin sett út í og hitað – ekki gott að láta þau maukast of mikið
  6. Þegar eldaður er heill kalkúnn er fyllingin sett inn í hann og einnig höfð sem meðlæti.  Fyllingin er borin fram volg með kalkúnabringunum

 

Sósa

  1. Vatn hitað í potti og kalkúnakrafti bætt við – blandað saman
  2. Suðan látin koma upp og sósujafnara bætt við – hrært saman
  3. Rjómi og sæta sett út í. Saltað og piprað
  4. Ágætt að láta sósuna malla aðeins
  5. Ef sósan er bragðlítil má prófa að setja nokkra dropa af sojasósu eða smá salt – bara ekki of mikið
  6. Mikilvægt er að bæta kalkúnasoðinu (sigta eplin frá) við í lokin
  7. Ef sósan er of þunn þá er upplagt að bræða aðeins af smjöri og blanda hveiti saman við þannig að úr verði kúla… setja kúluna í sósuna, hræra og láta suðuna koma upp

 

 

Meðlæti

Soðnar kartöflur eða ofnsteiktar kartöflur  og soðið grænmeti t.d. maís eða gulrætur og að sjálfsögðu ferskt salat.

Ofnsteiktar kartöflur Upplagt að láta kartöflur steikjast í ofnskúffu á meðan potturinn er í ofninum (sjá mynd).  Olíu blandað aðeins saman við kartöflurnar og settar í ofnskúffu.  Hræra aðeins í öðru hvoru. Ef mikið soð er í pottunum… má alveg hella aðeins af því yfir kartöflurnar.

Kalkúnabringur í vinnslu

 

Til að fá meiri lit ofan á má taka lokið af – stilla á grill í nokkrar mínútur

Fylling í vinnslu

 

 

Sósa í vinnslu – soðinu hellt í sósuna og eplin síuð frá

 

Kalkúnabringa borin fram í pottinum eða á bretti

Tveir í ofni … og kartöflur undir 

 

Fyllingin sett í pottlokið 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*