Sænskar kardimommubollur – hreint lostæti

Sænskar kardimommubollur – hreint lostæti

 • Servings: /Magn: 32
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Í Svíþjóð er mikið um gott kaffibrauð og eru kardimommubollur eitt af því sem fæst í mörgum bakaríum og á kaffihúsum. Þessa uppskrift fann ég í gömlu sænsku blaði og er hún alveg sérstaklega góð. Eins og með svo margt annað þá eru byrjunarerfiðleikar þegar baka á svona bollur en það verður miklu auðveldara næst. Ólíkt mörgum öðrum uppskriftum með geri er hér notuð köld mjólk til að leysa það upp. Þetta eru sérstaklega góðar bollur sem er skemmtilegt að baka.

Forvinna

Þegar búið er að framkvæma lið 1 – 8 má setja bollurnar inn í frysti í nokkra daga. Ef sú leið er farin þarf að nota aðeins meira ger. Best er þó að baka þær samdægurs – þá eru þær bestar.  Það má einnig búa til vanillusykurgljáann eitthvað áður.

Hráefni

Deig

 • 75 g pressuger – fæst í kælinum í Fjarðarkaupum (1½ bréf þurrger eða u.þ.b. 17 g)
 • 5 dl köld mjólk
 • 14 – 18 dl hveiti (best að nota brauðhveiti)
 • 2½ dl sykur
 • 200 g smjör – við stofuhita
 • 1 tsk salt
 • ½ tsk grófmulin kardimomma

Smjörfylling

 • 200 g smjör – við stofuhita
 • 100 g sykur
 • 100 g púðursykur

Penslun

 • 1 egg – hrært (má drýgja með mjólk)

Kardimommusykur

 • 100 g sykur
 • 1 tsk grófmulin kardimomma

Vanillusykurgljái

 • 1 dl sykur
 • 2 dl vatn
 • ½ vanillustöng eða 1 hreinsuð vanillustöng

Verklýsing

Deig

 1. Gerið leyst upp í hluta af mjólkinni í hrærivélarskál – afgangi af mjólk bætt við
 2. Annað hráefni sett út í – ekki allt hveitið. Deigið er hnoðað í 20-25 mínútur á góðum hraða. Stundum þarf að hnoða það lengur. Betra að setja eins lítið hveiti og hægt er svo að snúðarnir verði ekki þurrir (meira hveiti kallar á þurrari snúða). Í byrjun er deigið klístrað en þegar búið er að hnoða það lengi verður það mjög teygjanlegt og glansandi – minnir á tyggjó. Það á að vera hægt að koma við deigið án þess að það klístrist við fingurna. Ég hef notað rúmlega 14 dl af hveiti
 3. Deiginu skipt í tvo jafna helminga – sett í sitt hvora skálina og geymt í kæli í 30 mínútur. Þannig nær deigið að jafna sig og það verður auðveldara að fletja það út
 4. Smjörfylling útbúin – öllu blandað vel saman
 5. Annar helmingur deigsins flattur út – u.þ.b. 40 x 40 cm. Helmingur af smjörfyllingu smurður á allan flötinn. Deigið brotið þrefalt (sjá myndir að neðan) – þannig að það er í þremur lögum
 6. U.þ.b. 16 lengjur skornar (fínt að nota pizzuhníf) – gott að hafa hverja lengju 60 – 70 g eða tæplega 2½ cm þykka. Til þess að allar lengjurnar verði jafnstórar er gott að skipta fyrst í tvennt, skipta síðan hvorum helmingi í fjóra hluta og svo aftur í tvennt. Þetta er gert með því að skera aðeins í brúnina (sést vel á mynd fyrir neðan)
 7. Skorin lengja – togað í hana og snúið upp á tvo fingur. Vefja svo síðasta snúningnum þversum – þetta er svolítið eins og að vefja hnykil. (Ein leið er sýnd á mynd fyrir neðan)
 8. Bollurnar eru setta á bökunarpappír – gæta þess að hafa gott bil á milli – fínt að hafa 9 – 12 bollur á plötu. (Þegar hér er komið sögu má setja bollurnar í frysti og geyma í nokkra daga)
 9. Klútur settur yfir bollurnar (ágætt að hafa hann aðeins rakan) – láta hefast á stað þar sem ekki er trekkur
 10. Á meðan á hefingu stendur er gott að útbúa vanillusykurgljáann og kardimommusykurinn

Vanillusykurgljái

 1. Vatn hitað að suðu og sykri bætt við. Blandað vel saman þannig að sykurinn leysist upp og vanillustöngin látin sjóða með. Látið malla í 5 – 10 mínútur – hræra

Kardimommusykur

 1. Sykri og grófmulinni kardimommu blandað saman í skál

Bakstur

 1. Ofninn hitaður í 230°C
 2. Þegar bollurnar hafa tvöfaldað stærð sína (hefingin getur tekið rúmlega 1 klukkustund) eru þær penslaðar með hrærðu eggi og bakaðar í 6 -9 mínútur (fylgjast með síðustu mínúturnar svo að þær verði ekki of dökkar)
 3. Um leið og bollurnar eru teknar úr ofninum er vanillusykurgljáanum penslað vel á bollurnar og kardimommusykri stráð yfir
 4. Gott að láta bollurnar kólna á grind og halda þeim mjúkum með því að leggja klút yfir þar til þær eru bornar fram

IMG_5733

IMG_5734

IMG_5735

IMG_5737

IMG_5738

IMG_5739

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*