Haustsalat með rauðbeðum

Haustsalat með rauðbeðum

 • Servings: fyrir 4-5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi réttur er tilvalinn þegar halda á saumaklúbb. Ég fann uppskriftina í blaði, studdist við hana að hluta en breytti þó töluverðu. Salatið varð mjög gott og féll í kramið en ég mun seint bjóða yngstu meðlimum fjölskyldunnar upp á það – hvað þá eiginmanninum!

Forvinna

Tilvalið að baka rauðbeðurnar, sjóða baunirnar, rista valhneturnar og þurrka parmaskinkuna eitthvað áður.

Hráefni

Salat

 • 400 g rauðbeður (við bakstur er notað:  2 msk olía, 1 msk vatn og saltflögur)
 • 2 dl Gourmet Berg – linsubaunir
 • U.þ.b. ½ granatepli
 • 130 g geitaostur (mjúkur) og/eða fetaostur – mulinn
 • 3 msk valhnetur
 • 3 – 4 sneiðar af parmaskinku
 • Poki af blönduðu salati – helst með klettasalati
 • Upplagt að nota ferskt dill og/eða steinselju

Salatdressing

 • 3 msk ólífuolía
 • 2 msk rauðvínsedik
 • 2 msk hlynsíróp
 • 1 tsk dijonsinnep
 • 1 msk kapers – saxað
 • Saltflögur og nýmalaður pipar

Verklýsing

Salat

 1. Baunir lagðar í bleyti í klukkustund og síðan soðnar í u.þ.b. 25 mínútur (sjá hlutfall vatns á umbúðum). Látnar kólna. Athuga að suðutími styttist ef baunirnar eru mjög lengi í bleyti
 2. Ofninn hitaður í 200°C
 3. Rauðbeður hreinsaðar. Olíu og vatni blandað saman og penslað á rauðbeðurnar – salti dreift á álpappírsbút og rauðbeðunum pakkað inn. Bakað í ofni í tæpa klukkustund. Rauðbeðurnar látnar kólna og hýðið tekið af
 4. Hitinn lækkaður í 160°C
 5. Parmaskinka sett á bökunarpappír og inn í ofninn í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til hún er orðin stökk
 6. Valhnetur ristaðar í ofni eða á pönnu
 7. Salat sett á fat. Rauðbeður skornar í bita og dreift yfir ásamt baunum, osti, valhnetum, granatepli og fersku kryddi. Parmaskinkan rifin í litlar ræmur og dreift yfir

 

Salatdressing

 1. Olíu, ediki, hlynsírópi, sinnepi og kapers blandað saman
 2. Kryddað með salti og pipar
 3. Dreift yfir salatið og borið fram

Meðlæti

Nýbakað brauð.

IMG_5276

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*