Fiskihorn – þau allra bestu

Fiskihorn – þau allra bestu

 • Servings: 20 stykki
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Uppskriftin kemur frá mömmu og hefur hún haft þessi fiskihorn á jólahlaðborðinu síðustu áratugi.  Þau eru vinsæl hjá ungum sem öldnum.  Bjó þau sjálf til um daginn með smá aðstoð í byrjun en fann að þegar ég var að enda við seinni pakkann af smjördeiginu þá var ég búin að ná tökum á þessu.

Forvinna

Fyllinguna er betra að gera daginn áður  Einnig er hægt að útbúa fiskihornin kvöldið áður og geyma þau í kæli þar til þau eru sett í ofninn.

Hráefni

Fylling

 • Rétt rúmlega 300 g ýsa – soðin og skorin í litla bita
 • Soðið notað – ef með þarf. Þá er ágætt að sjóða það niður þ.e. vatnið, sem fiskurinn var soðinn í, er látið sjóða aðeins áfram.  Vatnsmagnið minnkar þar sem uppgufun verður og fiskisoðið verður bragðmeira
 • 250 g rjómaostur – mjúkur (við stofuhita)
 • 1 msk dill – þurrkað
 • ½ dl rjómi
 • Salt – ef með þarf

Fiskihorn

 • 2 pakkar smjördeig – keypt frosið
 • 1 egg

Verklýsing

Fylling

 1. Ýsa soðin í litlu vatni – vatn hitað að suðu, hiti lækkaður og fiskflakið sett ofan í. Látið vera í vatninu í u.þ.b. 10 – 12 mínútur á lágum hita (ekki sjóða). Fiskurinn tekinn frá. Soðið geymt (látið sjóða áfram þar til lítið er eftir af því). Notað til að þynna fyllinguna ef hún verður mjög þykk
 2. Rjómaostur, dill og rjómi – hrært vel saman
 3. Fiski bætt við – blandað vel saman
 4. Smakkað til og saltað – geymt í kæli yfir nótt

 

Fiskihorn

 1. Smjördeig látið þiðna í u.þ.b. 20 mínútur – hver plata flött aðeins út og skorin í tvennt. Hver hluti flattur út í ferning (ekki of stórt) – sjá mynd fyrir neðan
 2. Það getur verið ágætt að vigta fyllinguna (var 600 g hjá mér) og deila með 20 (fjölda fiskihorna).  Tilvalið að hafa disk á voginni og vigta áður en fyllingin er sett á smjördeigið – þannig verður svipað magn í hverju horni
 3. Fylling sett á miðjuna og brotið í þríhyrning – þrýst á hliðar. Kantar lokaðir alveg saman með gaffli. Ágætt að þrýsta honum niður og toga svo að sér (ekki lyfta honum aftur upp)
 4. Hornunum raðað á smjörpappír – u.þ.b. 8 á hverja plötu. Ef geymt er í kæli einhverja stund er ágætt að leggja næstu örk ofan á
 5. Ofninn hitaður í 200°C
 6. Fiskihornin pensluð með hrærðu eggi
 7. Bakað í 15 mínútur eða þar til kominn er fallegur litur á hornin. Stundum getur fyllingin runnið út en það gerist helst ef köntum er ekki nægilega vel lokað eða of mikið er af fyllingunni
 8. Borið fram heitt – ekki stafla hornunum ofan á hvert annað – þá falla þau saman

Meðlæti

Ferskt salat.

IMG_5765

IMG_5749

IMG_5764

IMG_6557

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*