Kartöflusalatið góða
Uppruni
Þessi uppskrift kemur frá mömmu og fylgdi hún henni frá Svíþjóð á sínum tíma. Kartöflusalatið á vel við ýmsa kjötrétti og er haft með roastbeefinu á jólaborðinu. Einnig hefur það verið með í för í fjallgöngum en kartöflusalatið geymist alveg einstaklega vel. Það er nokkuð frjálst hvaða laukur er notaður – bara eftir því hvað er til.
Forvinna
Hægt er að laga salatið töluvert áður og geyma í kæli. Það þarf þó að standa úti smástund áður en það fer á borðið þannig að olían verði fljótandi.
Hráefni
- Kartöflur – soðnar og skornar í bita
- Laukur/rauðlaukur/vorlaukur/graslaukur – saxað
- Niðursoðin ferskja – skorin í bita (má sleppa)
Lögur
- 1 hluti eplacider (vínedik) – t.d. 1 dl
- 3 hlutar ólífuolía – t.d. 3 dl
- Sykurögn
- Salt og pipar
Verklýsing
- Karöflur soðnar (í u.þ.b. 20 mínútur), afhýddar og skornar í bita – sett í skál
- Laukar og ferskja (ef henni er ekki sleppt) – sett út í
- Olíu og ediki blandað saman og hellt yfir
- Kryddað með salti og pipar og ögn af sykri
- Skreytt með graslauk eða steinselju
Gott með
Passar vel með allskyns kjöti og grillmat.



