Home » Andabringa a la Vigfús

Andabringa a la Vigfús

Andabringa af bestu gerð

  • Servings: 1-2
  • Difficulty: meðal
  • Prenta

Uppruni

Þar sem ég hef ekki kunnað að elda andabringu fékk ég Vigfús til að aðstoða mig.  Það kom mér á óvart hvað það er raunverulega einfalt.  Maður þarf bara að vera skipulagður og taka bringurnar tímanlega úr frystinum til að láta þær þiðna í rólegheitum.  Strá svo salti yfir og láta þær liggja í salti yfir nótt.  Skemmtileg og þægileg matreiðsla.  Með öndinni var boðið upp á appelsínusósu sem er líka a la Vigfús.

Hráefni

  • 1 andabringa – ef hún er frosin er best að taka hana úr frysti daginn áður.  Frönsku andabringurnar hafa verið góðar
  • ½ – 1 msk saltflögur
  • Nýmalaður pipar

Verklýsing

  1. Andabringan tekin úr kæli þannig að hún nái stofuhita.  Tíglar skornir í fituna – sjá mynd
  2. Saltflögum stráð á fituna og þeim nuddað vel inn í.  Kjötinu snúið við og ögn af saltflögum stráð yfir kjötið.  Bringan lögð í fat og plastfilma sett yfir.  Látið standa í kæli yfir nótt eða í a.m.k. 6 klukkustundir
  3. Ofninn stilltur á 150°C (yfir- og undirhiti)
  4. Andabringan sett á kalda pönnuna – fituröndin látin snúa niður.  Hitinn hækkaður upp í rúmlega meðalhita. Góður litur látinn koma á fituhliðina.  Því næst er kjötinu snúið við eldsnöggt og því rétt lokað.  Kjötið sett aftur á fituröndina.  Hitamæli stungið inn í mitt kjötið.  Pipar mulinn yfir og pannan sett inn í ofninn
  5. Þegar kjötið er komið í 49°- 50°C er það tekið út.  Það má gera ráð fyrir að kjarnhiti kjötsins hækki um 3° – 4° eftir að bringan kemur úr ofninum.  Kjarnhiti kjötsins ætti að enda í 53° – 54°C.   Kjötið skorið í sneiðar

 

Meðlæti: Appelsínusósa, kartöflur eins og t.d. stökkar kartöflur og gulrætur og gómsætir gulrótarstrimlar

 

 

Viltu skilja eftir athugasemd?

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*