Bakaður hvítlaukur
Uppruni
Ef kverkaskítur hefur hrjáð heimilisfólkið hef ég í gegnum tíðina boðið upp á saxaðan hvítlauk í skeið sem kyngt er með stóru glasi af vatni… ótrúlegt en satt þá virkar þetta. Hef sem sagt tröllatrú á hvítlauknum en veit að það eru ekki allir hrifnir af honum ….finnst hann of bragðsterkur og illa lyktandi. Þá er hér ein leið til að milda hann en það er með því að baka hann í ofni í lokuðu íláti og þá kemur pottalingurinn sterkur inn. Þegar hvítlaukurinn hefur bakast í ofninum verður hann bæði mjúkur og mildur. Hægt er að nota hann í ýmsa matargerð eða ofan á brauð. Slurkur af bökuðum hvítlauk gerir margan mat betri …..möguleikarnir eru endalausir og frábært að eiga smá gums í kælinum. Sem dæmi má nefna: á pizzuna, í pastað, í hvítlauksolíuna, í ídýfuna…allt verður þetta betra með slurk af grillaða hvítlauknum.
Hráefni
Verklýsing
- Ofninn hitaður í 180°C (yfir- og undirhiti)
- Hvítlaukurinn snyrtur aðeins og skorið ofan af toppnum (u.þ.b. ¼ skorinn af) – sjá mynd. Settur í pottaling eða eldfast ílát með loki
- Olíu hellt yfir (eða klípa af smjöri) og saltflögum stráð yfir. Toppurin, sem var skorinn af, er lagður til hliðar – lokið sett á og inn í ofninn. Eldað í 40 – 70 mínútur – svolítið háð stærð hvítlauksins
- Potturinn (eða ílátið) tekinn út og látinn kólna. Mér finnst gott að hella smjörinu/olíunni, sem er í botninum á pottinum, yfir hvítlaukinn☺️
- Þegar hvítlaukurinn er orðinn kaldur má nota subbulegri aðferðina og kreista hann með höndunum eða þá snyrtilegri og taka hvítlauksgeirana úr með skeið
- Hægt að hræra gumsinu saman þannig að úr verði mauk
Geymsla: Geymist vel í lokuðu íláti í kæli.
Hugmyndir:
Á brauðið og fiskinn…











Pingback: Ofnsteiktur laukur í pottalingi
Pingback: Hnoðaðar kúri súrdeigspizzur