Humarsalat með frjálsri aðferð
Uppruni
Hér kemur einfaldur og góður lúxusréttur sem má auðveldlega aðlaga að sínum uppáhalds hráefnum. Ef von er á vinkonum í mat er þetta málið. Segi vinkonum … bara þar sem ég er í minnihluta á heimilinu og hjá prótínkarlpeningnum mínum þykir þessi réttur mjög gott meðlæti eða forréttur. Ég get sammælst um að hugmyndin um forrétt sé alls ekki svo galin en mér þykir þetta líka vera húrrandi góður aðalréttur. Það má líka leika sér með hráefnin. Bæta því við, sem þykir gott, og taka annað út. Sama má segja með sósuna…. það er mismunandi hver þeirra á mest upp á pallborðið. Mér þykir þær allar góðar en jalapenósósan þótti best en það kom til tals að hún væri jafnvel óþörf. Kryddið, sem humarinn er steiktur upp úr, er ekki heilagt en gerir heilmikið fyrir réttinn. Við erum sem sagt að tala um úrvals rétt með fullt af möguleikum.
Forvinnsla
Réttinn má forvinna með því að sjóða búlgurnar og búa jalapenósósuna til daginn áður (verður betri ef hún fær að standa). Einnig er gott að taka humarinn úr frysti kvöldið áður og láta hann þiðna í rólegheitum í ísskápnum.
Hráefni
Humar og snittubrauð
- 500 g skelflettur humar
- 50 g smjör
- 1 tsk kóríanderfræ
- 1 tsk ljós sinnepsfræ
- 1 tsk rósapipar
- ½ tsk hvítlaukssalt
- 2 hvítlauksrif – pressuð eða söxuð fínt
- ½ – 1 snittubrauð (smjör og ½ tsk hvítlaukssalt)
Salat
- Salat eins og klettasalat, íssalat og/eða rauðkál (skorið í þunnar sneiðar)
- Biti af melónu – t.d. Galía eða kantalupa – skorinn í smærri bita
- 1 dl búlgur (soðið í 2 dl af vatni) – búlgur fást t.d. í Krónunni eða í Fjarðarkaupum
- Biti af rauðri og/eða gulri papriku – skorinn smátt
- 4 – 5 litlir tómatar – skornir í bita
- 5 – 6 jarðarber – skorin í tvennt
- Hluti af granatepli
- 1 avókadó (skorið í bita og nokkrum dropum af sítrónu/lime kreist yfir)
- ½ dl pistasíuhnetur
- Salt og pipar
Hugmyndir að öðru hráefni: rauðlaukur, bláber, graskersfræ, mangó
Jalapenósósa
- ½ dl niðursoðin jalapenó – saxað smátt (vökvinn fer ekki með)
- ¾ – 1 dl sýrður rjómi
- ½ dl majónes
- Saltflögur
Hugmyndir að öðrum sósum: hvítlaukssósa, engifermajónes, góð kokteilsósa
Verklýsing
Jalapenósósa – betri ef hún er búin til daginn áður
- Jalapenó sett í mixer með sýrða rjómanum. Majónesi blandað saman við
Salat
- Búlgur soðnar. Ekki man ég hvaðan ég heyrði að gott væri að láta vatn í pott og hita það að suðu .. leggja búlgurnar í og láta þær liggja þar í nokkrar mínútur (þannig að sterkjan fari úr). Vatnið sigtað frá og 2 dl af vatni sett í pottinn, hitað að suðu og búlgurnar látnar ofan í, hitinn lækkaður og soðið í 7 mínútur. Eflaust má sleppa því að láta þær liggja fyrst í heita vatninu
- Allt hráefni sett á stórt fat
Humar
- Gott að láta smjörið bráðna á pönnunni. Piparkornum og hvítlauk bætt við ásamt fræjum. Allt látið mýkjast á lágum hita á pönnunni á meðan salatið er útbúið – þá mýkjast piparkornin og gefa gott bragð.
- Rétt áður en salatið er borið fram er hitinn hækkaður, humarinn snöggsteiktur og öllu hellt yfir salatið
- Snittubrauðið skorið í sneiðar og smjör brætt á pönnu. Brauðið steikt upp úr smjörinu á báðum hliðum og kryddað með hvítlaukssalti. Brauðinu raðað í kringum salatið. Það má alveg rista snittubrauðið á sömu pönnu og humarinn var steiktur á…. það gefur bara ennþá betra bragð
Hráefni













Hvað eru Búlgaríu?
Afsakið svein svör en búlgur minna á kúskús. Þær er hægt að fá í t.d. Krónunni eða Fjarðarkaupum