Kjúklingur með nachos og hvítlauk

Kjúklingur með nachos og hvílauk

 • Servings: 5 - 7 manns
 • Difficulty: miðlungs
 • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fékk ég hjá Gerðu fyrir nokkrum árum.  Vinsæll réttur hjá öllum aldurshópum – ekki hægt að fá leið á honum.

Undirbúningur

Þarf að liggja í marineringu yfir nótt.

Best er að byrja á því að búa til hvítlauksolíuna þar sem hún er gerð í mixara.  Ekki þvo mixarann á milli heldur setja grænmetið beint í hann – þá kemur gott bragð af sósunni í marineringuna. Hvítlauksolíuna er gott að gera daginn áður.

Hráefni

Hvítlauksolía

 • ½-1 hvítlauksrif (jafnvel meira)
 • 1 búnt steinselja
 • 1 stk engiferkúla (Stem ginger in syrup – fæst t.d. í Fjarðarkaupum)
 • 2-3 dl olía

Kjúklingamarinering

 • 6 stk kjúklingabringur – skornar í bita
 • 3-4 gulrætur
 • 6 cm púrrulaukur
 • 2-3 sellerístilkar
 • 2-3 stk engiferkúlur
 • 1 msk hunang
 • 1 msk soyasósa
 • Olía til steikingar

Meðlæti

 • 1-2 pokar salat (t.d. klettasalat)
 • 1 poki nachos (osta- og/eða chiliflögur)
 • 2-3 msk sesamfræ

Verklýsing

 1. Allt hráefni í hvítlauksolíuna er sett saman í matvinnsluvél – maukað og sett í litla könnu eða skál
 2. Sellerístilkar, púrrulaukur og gulrætur er skorið niður í grófa bita – sett í pott með litlu sjóðandi vatni og soðið létt (u.þ.b. 6 – 9 mínútur)
 3. Grænmetið tekið upp úr vatninu og sett í matvinnsluvél ásamt engiferkúlum, soya og hunangi – óþarfi er að þvo matvinnsluvélaskálina eftir hvítlauksolíuna
 4. Kjúklingabitar eru settir í grænmetisblönduna og látnir marinerast (í lokuðu íláti) í sólarhring í kæli
 5. Kjúklingabitarnir eru steiktir á pönnu í olíu á meðalhita (þarf ekki að skafa marineringuna af bitunum). Hef það lag á að steikja nokkra bita í einu (á frekar háum hita) og setja þá svo í pott til hliðar (sem er á lágum hita) – sjá mynd.  Ef marineringin brennur á pönnunni er gott að hreinsa pönnuna á milli. Í lokin er því sem eftir er af marineringunni skellt á pönnuna og steikt aðeins – kjúklingabitunum blandað saman við
 6. Salat sett í skál eða á fallegt fat – nachosflögum stráð yfir (gott að mylja þær aðeins) og kjúklingurinn settur ofan á
 7. Gott er að hella hluta af hvítlauksolíunni yfir og skreyta síðan með sesamfræjum – rétturinn er tilbúinn

Borið fram

Þarf ekki endilega að vera heitt – má steikja og setja svo í pott á vægum hita þar til rétturinn er borinn fram.

Sumum finnst gott að hafa hrísgrjón einnig með.

Hvítlauksolía í vinnslu og grænmeti skorið niður 

 

Kjúklingabitar í marineringu og steiking… 

IMG_0887

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*