Minni útgáfa af heslihnetutertu
Uppruni
Hin þýskættaða Schwarzwaldsterta er ein af þeim uppskriftum sem mamma tók með sér frá Svíþjóð forðum daga og í mínum huga fallega súkkulaðiskógartertan. Hér kemur míní útgáfa af henni sem getur verið falleg ein og sér á eftirréttardisknum. Það má leika sér aðeins að stærðinni á kökunum með því að hafa þær minni og fleiri (ath. þá styttist bökunartíminn að sama skapi). Eins má leika sér að því að hafa bara tvær hæðir í stað þriggja… allt leyfilegt.
Fjöldi/stærð: Uppskriftin miðast við 6 kökur, 6 – 7 cm í þvermál og á þremur hæðum. Ég hef líka haft þær 3 – 3½ cm í þvermál og þá urðu þær 40 á þremur hæðum (fullkominn munnbiti). Í þeirri stærð var bökunartíminn 5½ mínúta
Ath. Með því að setja rjómann á milli daginn áður eða fyrr um daginn verða kökurnar mýkri … sérstaklega ef þær eru aðeins bleyttar með sérríinu.
Forvinna
Hægt er að búa til hnetubotnana nokkrum dögum áður.
Hráefni
Hnetubotnar:
- 4 eggjahvítur
- 2 dl sykur
- ½ tsk saltflögur
- 3 dl heslihnetur – flysjaðar
Fylling og samsetning:
- 3 – 4 dl rjómi
- 2 tsk vanillusykur
- 2 – 3 msk sérrí (valfrjálst)
Skraut
- 30 – 35 g suðusúkkulaði
- 1 msk kakó
Verklýsing
Hnetubotnar
- Hægt er að kaupa flysjaðar heslihnetur en þannig þurfa þær að vera í þessari uppskrift (fást t.d. í Costco). Hneturnar eru annað hvort ristaðar á pönnu eða í 200°C heitum ofni í u.þ.b. 5 mínútur – látnar kólna aðeins og hýðið hreinsað af (fínt að setja þær á milli lófanna og nudda aðeins … þá fer hýðið að mestu). Einnig má setja þær í klút, þegar hýðið fer að losna, og nudda það af
- Hneturnar malaðar eða rifnar fínt (í blandara, matvinnsluvél eða með rifjárni) – sjá myndir
- Ofninn hitaður í 175°C (blástur) og 18 hringir (6 – 7 cm í þvermál) teiknaðir á bökunarpappír (2 arkir) – læt hliðina, sem teiknað er á, snúa niður (svo blý eða blek blandist ekki við)
- Eggjahvíturnar stífþeyttar með helmingi af sykrinum. Afgangi af sykri og salti bætt við og þeytt aðeins áfram. Heslihnetumulningnum blandað varlega saman við með sleikju
- Strokið með köldu smjöri á bökunarpappírinn (eða bleyta eldhúspappír með olíu). Blandan sett í rjómasprautu með u.þ.b. 1 cm stút og sprautað innan hringanna (best að byrja innst og svo út á við)
- Bakað í 12 mínútur (styttri tími ef kökurnar eru minni)
Skraut
- Suðusúkkulaði er brætt við vægan hita í vatnsbaði – sjá mynd. Ágætt að taka skálina af vatnsbaðinu þegar súkkulaðið er ekki alveg bráðnað og blanda saman með sleikju þar til allt er bráðnað
- Súkkulaðinu smurt á bökunarpappír með sleikju
- Sett í ísskáp/frysti þar til súkkulaðið harðnar – þá má brjóta það í ójafna parta
Fylling og samsetning:
- Rjómi og vanillusykur þeytt saman
- Rjóminn settur í rjómasprautu. Ef sérrí er notað er því dreift með skeið á botnana jafnóðum áður en rjóma er sprautað á (sérrí ekki sett á efsta botninn)
- Hver kaka er búin til út þremur botnum og rjómi settur á milli. Þegar þriðji botninn er settur á er smá toppur af rjóma settur efst og súkkulaðibitaskrauti stungið ofan í hann. Ath. Ef kökurnar eiga að standa í einhvern tíma eða yfir nótt er betra að bíða með rjómann efst, breiða plastfilmu yfir og setja í kæli. Rjómatoppurinn settur á samdægurs ásamt súkkulaðibitaskrautinu
- Kakó sigtað yfir í lokin
Mini munnbitar
Með því að vera með kökurnar 4 cm að þvermáli. Getar kökurnar orðið rúmlega 50 talsins. Um að gera að endurnota bökunarpappírinn með því að hreinsa með pappír og strjúka aftur yfir köldu smjöri. Bökunartíminn er u.þ.b. 5 mínútur
Heslihnetur hreinsaðar og muldar

Heslihnetur sem eru án hýðis (fást t.d. í Costco).
Litlir botnar í vinnslu



Minibotnar í vinnslu(4cm)

Samsetning á stærri botnum (6 – 7 cm)
Kakó stráð yfir í lokin













