Marengshreiður með sítrónusmjöri og rjóma
Forvinna
Hreiðrin má baka nokkrum dögum áður og sama má segja með sítrónusmjörið þar sem það geymist ágætlega í kæli. Þá er bara eftir að þeyta rjóma og skreyta.
Uppruni
Á páskunum er skemmtilegt að bjóða upp á eitthvað gult og sætt í eftirrétt. Hér kemur ein einföld og falleg uppskrift. Það er smekksatriði hversu stór hreiðrin eiga að vera en þar sem við erum að tala um smá sykursprengju finnst mér betra að hafa þau ekki of stór. Hreiðrin má skreyta á ýmsa vegu … allt er leyfilegt. Sítrónusmjörið er alls ekki flókið og upplagt að búa það til sjálfur.
Hráefni
Marengshreiður
- 4 eggjahvítur
- 200 g flórsykur
Meðlæti
- Heimagert sítrónusmjör (eða límónusmjör) eða keypt
- U.þ.b. 3 dl rjómi
Verklýsing
- Ofninn hitaður í 100°C (blásturstilling) og smjörpappír lagður í ofnskúffu
- Eggjahvítur þeyttar – flórsykri bætt við (lítið í einu) þegar eggjahvítur eru orðnar hvítar. Þeytt aðeins áfam
- Blönduna má setja í rjómasprautu eða nota sleikju til að skipta í 10 jafnar kökur. Ef blandan er sett í sprautu eru hreiður mótuð með hærri köntum. Ef sleikja er notuð eru hreiður mótuð og skeið notuð til að mynda holur í miðjuna á hverri köku. 10 minni toppar eru síðan sprautaðir (eða mótaðir með sleikju) á bökunarpappírinn. Ath. Stærð hreiðranna er smekksatriði – þau mega vera minni eða stærri
- Bakað í 1½ klukkustund og látið kólna í ofninum
- Samsetning: Rjóminn þeyttur. Sítrónusmjör sett í botninn á hreiðrunum og þeyttum rjóma bætt ofan á (getur verið fallegt að sprauta rjómanum). Næst er doppa af sítrónusmjöri sett ofan á og að lokum marengstoppi tyllt á. Skreytt með kurluðu súkkulaði eða öðru skrauti
Rjómasprauta eða sleikja notuð