Pizzusnúðar hjálparkokksins

Góðir og barnvænir pizzusnúðar í nestisboxið

 • Servings: /Magn: 18 snúðar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Hvað er skemmtilegra en að hafa lítinn hjálparkokk með sér í eldhúsinu sem vill gjarnan taka þátt í matargerðinni.  Þegar þannig stendur á er upplagt að skella í þessa einföldu uppskrift.  Ekki spillir fyrir að það er alltaf gott að eiga pizzusnúða í frysti… taka þá út að morgni og stinga í nestisboxið.  Með hjálparkokk sér við hlið verður baksturinn bæði skemmtileg og nærandi samverustund sem skilur eftir góðar minningar og líka…slatta af hveiti úti um allt!  Ég er ekki í vafa um að það sé dýrmætt og gott fyrir börn að virkja þau í eldhúsinu … þó matseldin taki kannski aðeins lengri tíma og aðeins meiri frágang – þá búa þau að því í framtíðinni.

Hráefni

Deig

 • 5 dl mjólk
 • 1 bréf þurrger (50 g pressuger)
 • ½ dl ólífuolía
 • 2 tsk salt
 • 1 egg
 • 12 – 14 dl hveiti

 

Fylling – hugmyndir

 • Krukka af niðursoðnum tómötum – maukaðir/saxaðir – líka gott með basil/hvítlauk
 • Skinka/pepperóni – má sleppa
 • Rifinn ostur – u.þ.b. 200 g

 

Ofan á

 • 1 egg (hrært)
 • Rifinn ostur eða parmesanostur

Verklýsing

Deig

 1. Mjólk sett í pott og hituð þannig að hún verði ylvolg – alls ekki hærra en 37°C – frekar aðeins lægra. Olíu og eggi blandað saman við mjólkina
 2. Þurrger og salt sett í skál.  Hluti af mjólkurblöndunni settur í skálina og blandað saman með sleikju (sjá myndband)
 3. Nokkrum dl af hveiti blandað saman við með sleikju og hrært saman.  Afgangi af hveiti bætt við og hnoðað þar til deigið verður þannig að það klístrist ekki við fingurna – passa samt að hafa það ekki of þurrt
 4. Látið hefast í u.þ.b. 45 mínútur með klút yfir skálinni (gott að skálin sé þar sem ekki er mikill trekkur eða leyfa sólinni að skína á hana) – láta það lyftast tvöfalt
 5. Deigið sett á hveitistráð borð og flatt út ca. 30 x 40 cm
 6. Pizzusósu/söxuðum tómötum dreift yfir ásamt pepperóni, skinku eða það sem hver og einn vill ásamt osti
 7. Rúllað saman og skorið í bita. Best að skipta rúllunni fyrst í tvennt, skipta síðan hvorum helmingi í þrjá hluta og síðan hverjum þriðjungi í þrennt. Það eiga að koma 18 snúðar í það heila. Gott að gera far með hnífnum, þegar verið er að skipta niður, og skera svo alveg niður þegar búið er að áætla stærð snúðanna (sjá myndband)
 8. Sett á bökunarpappír og látið hefast undir dúk (viskustykki) í 30 mínútur.  Yfirleitt komast 9 snúðar á eina bökunarplötu
 9. Ofninn hitaður í 250°C
 10. Penslað með hrærðu eggi og rifnum osti dreift yfir.  Bakað í ca. 8 -12 mínútur

Geymsla

Það er mjög vinsælt að eiga pizzusnúða í frystinum.  Upplagt að ná sér í einn að morgni og taka með sér í nesti.  Þá þiðnar hann hægt og rólega og er orðinn dúnmjúkur í hádeginu.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*