Brakandi góð pizza í eftirrétt
Uppruni
Ég glugga oft í sænsku bakstursblöðin mín og er þá að spá hvað væri gaman að prófa sig áfram með. Yfirleitt breyti ég uppskriftunum og aðlaga þær að mínu uppáhaldi. Hér kemur ein, sem ég er búin að breyta aðeins, en þetta er skemmtilegur eftirréttur.
Forvinnsla
Deigið má útbúa daginn áður og geyma í kæli. Stundum eru tvær pizzur aðeins of mikið og er þá upplagt að geyma annan helminginn og nota hann seinna í vikunni.
Hráefni
Botn
- 10 g þurrger
- 2 dl volgt vatn (ekki heitara en 37°C)
- 1 msk sykur
- ½ tsk salt
- 1 msk olía
- 1 egg
- 2 msk kakó
- 5 dl hveiti
Ofan á – hugmynd
Á eina pizzu
- Rjómaostur – 100 g á hvora pizzu blandað saman við ½ tsk vanilluduft/paste (má einnig nota vanillusykur)
- U.þ.b. 120 g fersk eða frosin hindber
- 6 litlar kókosbollur (eða 3 stórar)
- 50 g suðusúkkulaðidropar
- ½ dl hnetur t.d. pistasíuhnetur
- ½ – 1 msk hunang
eða
- 50 – 80 g hvítir súkkulaðidropar
- Aðeins af suðusúkkulaðibitum
- 120 g fersk eða frosin hindber
- 6 litlar kókosbollur
- ½ – 1 msk hunang
eða
- sykurpúðar
- nutella
Verklýsing
Botn
- Vatn og þurrger sett í skál og blandað saman
- Sykri, salti, olíu og eggi hrært saman við
- Kakói og hveiti bætt við og hnoðað saman
- Klútur settur yfir og látið hefast í 45 mínútur
- Grillið hitað eða ofninn stilltur á 225°C (yfir- og undirhiti)
- Hveiti sigtað á borðplötuna og deigið látið falla úr skálinni – deiginu skipt í tvo helminga og tvær bollur gerðar. Ef tvær pizzur er of mikið fer önnur bollan í skál, plastfilma sett yfir og inn í kæli
- Hvor bolla er flött út þannig að þvermál hennar verði 25 cm (gott að sigta aðeins meira hveiti ef þarf – ekki of mikið þá verður deigið of þurrt). Pizzurnar settar á bökunarplötur (með pökunarpappír) eða á pizzuhringi
Ofan á
- Ef rjómaostur er notaður er honum blandað saman við vanilluduft/paste eða sykur og klípur settar hér og þar á pizzuna
- Kókosbollunum (þessar minni) skipt í tvennt og settar einnig hér og þar. Hindberjum, pistasíuhnetum og súkkulaðidropum stráð yfir. Hunangi dreift yfir í lokin
- Bakað í u.þ.b. 10 mínútur í ofninum eða á grillinu. Kókosbollurnar eiga það til að verða smá dökkar á grillinu (sérstaklega ef það er mjög heitt) – þá er gott að fylgjast með þegar 5 – 7 mínútur eru liðnar af bökunartímanum
Gott með: Borið fram með þeyttum rjóma eða ís
Geymsla: Pizzan er best nýbökuð en ef sneið er eftir er gott að velgja hana aðeins og fá sér daginn eftir – jafnvel tveimur dögum seinna.
Botn í vinnslu
Eftirréttapizza með hvítu súkkulaði, hindberjum og kókosbollum … bökuð í ofni