Lagskipt og lekkert í eftirrétt

Falleg og fersk kaka - óbökuð

 • Servings: /Magn: 8 - 10 sneiðar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi kaka hefur allt sem einkennir góðan eftirrétt….falleg, fljótleg, einföld, fersk og góð.  Uppistaðan er grísk jógúrt sem gerir kökuna ferska og ekki of sæta.  Hún hefur lukkast svo glimrandi vel að það er nauðsynlegt að halda hlutföllunum til haga hér.  Röðunin er ekki heilög… stundum finnst mér gaman að hafa bleika litinn efst og stundum ekki … bara eins og hver og einn kýs.

Forvinnsla 

Flott að búa kökuna til daginn áður og láta hana standa í kæli yfir nótt.

 

Hráefni

 • 30 – 40 g smjör – brætt
 • 1 pakki (154 g) Oreokex
 • 500 g grísk jógúrt (ég hef notað frá Örnu)
 • 2 dl rjómi
 • 150 g hvítt súkkulaðidropar
 • 150 g rjómasúkkulaði – dropar
 • 150 g hindber eða blanda af rifsberjum og hindberjum
 • 1 msk hunang
 • 1 blað matarlím

 

Verklýsing

 1. Oreokexið mulið í matvinnsluvél – bræddu smjöri blandað saman við með sleikju
 2. Oreomulningurinn settur í 20 cm smelliform með bökunarpappír í botninum og þjappað – sett í kæli á meðan fyllingin er búin til. Ath. hægt er að setja plastfilmu innan á hliðar smelluformsins.  Þannig helst bleiki liturinn frekar – stundum kemur aðeins blár tónn í bleika hlutann
 3. Rjómasúkkulaðidroparnir bræddir í skál yfir heitu vatnsbaði.  Þegar súkkulaðið er við það að bráðna er það tekið frá og hrært þar til súkkulaðið er alveg bráðnað.  1/3 (167 g) af grísku jógúrtunni blandað saman við með sleikju
 4. Rjóminn þeyttur og 1/3 af honum blandaður saman við súkkulaðiblönduna og sett ofan á oreomulninginn.  Smelliformið sett aftur í kælinn
 5. Sama gert við hvíta súkkulaðið .. brætt að mestu, tekið af vatnsbaðinu, hrært með sleikju þar til allt er bráðnað.  Þriðjungi af grísku jógúrtinni blandað saman við ásamt þriðjungi af rjómanum.  Blöndunni hellt yfir rjómasúkkulaðiblönduna
 6. Berjablandan ásamt hunangi er sett í pott og hitað að suðu – leyft að malla þar til berin eru maukuð.  Berjagumsið sett í sigti og hratið sigtað frá.  Vökvinn, sem kemur frá berjunum, er tekinn frá.  Matarlím sett í skál með köldu vatni og látið vera þar í 5 mínútur. Ath. það er hægt að sleppa matarlíminu en þá getur runnið aðeins af vökva úr kökunni á meðan hún er að jafna sig í kæli
 7. Ágætt er að halda berjavökvanum heitum.  Matarlímið kreist frá vatninu og sett í heitan berjavökvann.. hrært þar til matarlímið leysist upp
 8. Þegar vökvinn hefur kólnað aðeins er því sem eftir er af grísku jógúrtinni og rjómanum blandað saman við og bætt ofan í smelliformið.  Plastfilma sett yfir og sett í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt
 9. Kakan tekin úr smelliforminu og sett á kökudisk – fallegt að skreyta með berjum og ferskri myntu

  

 

Matarlím sett í skál með köldu vatni í 5 mínútur

 

Matarlímið tekið upp úr vatninu og kreist – sett í berjavökvann og hrært saman 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*