Lúxus útgáfa af sænska réttinum pytt í panna

Lúxus útgáfa af pytt í panna

 • Servings: 4 - 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Pytt i panna er eitt af því sem ég fékk þegar ég var lítil.  Í Svíþjóð fengum við nýlega þessa fínu og góðu spariútgáfu af réttinum. Við ákváðum að reyna að búa hann til hér heima og vakti tilraunamennskan töluverða lukku.  Unga fólkið kann vel að meta kartöflurnar en yfirleitt þarf mjög mikið af þeim.  Laukurinn er alveg ómissandi og sömuleiðis að hella eggjarauðunni yfir heitan réttinn.  Það getur verið smá maus að útbúa kartöflurnar en það er samt algjörlega þess virði.

Forvinna

Kartöflurnar má sjóða daginn áður. Laukinn er upplagt að steikja fyrr um daginn og einnig má steikja kartöflurnar einhvað áður og halda þeim heitum í ofninum.

Keto: Fyrir ketófólkið er sniðugt að steikja blómkálsbita í olíunni og krydda með Swarma og/eða karrý á eftir.

Hráefni

 • 800 g nautabuff – skorið í meðalstóra bita
 • 1½ kg kartöflur
 • Olía til steikingar (fyrir kartöflurnar)
 • 2 – 3 laukar – saxaðir smátt
 • 2 – 3 msk olía og 1 msk smjör (til að steikja laukinn í)
 • Salt og pipar

 

Dijonmajó

 • 2 msk dijon sinnep
 • 1½ dl majónes

 

Skraut

 • Tómatar
 • Steinselja
 • 4 – 5 eggjarauður

 

Verklýsing

Kartöflur

 1. Kartöflur soðnar (suðan látin koma upp – hitinn lækkaður og kartöflur látnar sjóða í u.þ.b. 15 mínútur) – flysjaðar fyrir eða eftir suðu. Betra að hafa kartöflurnar minna soðnar en meira – þá molna þær síður þegar þær eru skornar niður.  Ef ég sýð kartöflurnar án hýðis finnst mér ágætt að skola þær aðeins með köldu vatni eftir að vatninu er hellt  af
 2. Þegar kartöflurnar hafa kólnað eru þær skornar í teninga – frekar smáa
 3. Ofninn hitaður í 100 – 150 °C
 4. Olía hituð í djúpri pönnu og kartöflubitar settir út í – best að olían nái yfir sem mest af kartöflunum. Ath. Kartöflurnar eru hálf djúpsteiktar. Best að steikja þær í 2 – 3 skömmtum – fer eftir stærð pönnu og magni af olíu. Kartöflurnar látnar krauma þar til fallegur litur fer að myndast á þeim. Teknar upp úr – settar á eldfast fat og  inn í ofninn
 5. Næsti skammtur af kartöflum settur í olíuna og steikt (stundum þarf að bæta aðeins við olíuna)

 

Laukur

 1. Smátt skorinn laukur settur á pönnu með töluvert af olíu og smjöri.   Laukurinn látinn malla á frekar lágum hita þangað til hann verður glær (ágætt að hafa lok yfir – þá er uppgufunin minni).  Best að láta laukinn malla lengi á mjög lágum hita með lokinu á.  Ef tíminn er naumur má gera ráð fyrir að laukurinn malli í 15 – 20 mínútur.  Varast að hafa hitann of háan svo að laukurinn brenni ekki

 

Kjötið

 1. Kjötið skorið í meðalstóra bita
 2. Pannan hituð og kjötið þurrsteikt á frekar háum hita.  Smekkstatriði hversu lengi á að steikja kjötið en okkur hefur þótt betra að kjötið sé aðeins rauðbleikt að innan

 

Dijonmajó

 1. Dijon og majónesi blandað saman

 

Framsetning

 1. Tómatar grillaðir aðeins eða bornir fram ferskir
 2. Kjötið, kartöflurnar og laukurinn er sett á hvern hluta disksins (ekki blanda saman) – eggjarauða í eggjaskurni sett í miðjuna og skreytt með steinselju og tómötum – sjá mynd fyrir neðan
 3. Best að taka sitt lítið af hverju og hella eggjarauðunni yfir – blanda saman (eggjarauðan er hálfgerð sósa)
 4. Skreytt með steinselju

 

Laukur steiktur

Dijonmajó 

 

Kartöflur steiktar

 

Kartöflum haldið heitum í eldföstu fati 

 

Kjöt skorið niður

 

Kjötið steikt

 

Rétturinn settur á disk

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*