Steikarloka - upplagt til að nota afganga af steikinni
Uppruni
Vinsæll sparimatur hér á bæ er rautt kjöt eins og t.d. retro nautalundin. Stundum verður biti afgangs af kjötinu og þá höfum við útbúið steikarsamlokur daginn eftir. Til að byrja með var steikarsamlokan afgangamatur þar sem við kláruðum kjötið, heimagerðu bernaisesósuna og steiktu sveppina en svo hafa hlutirnir þróast þannig að við útbúum stundum steikarsamloku án þess að vera með afganga. Þá kaupum við lítinn bita af nautakjöti, en í hverja samloku þarf ekki mikið kjöt, steikjum sveppi og lauk – ef tíminn er naumur er notuð pakka bernaisesósa – einfalt og alltaf vinsælt hér á bæ.
Hráefni
- Hamborgarabrauð – t.d. heimagert hamborgarabrauð
- Rauðlaukur – skorinn í sneiðar
- Sveppir – skornir í sneiðar
- Bernaisesósa – tilvalið að nota afgang af heimagerðri bernaisesósu
- Nautakjöt
- Salat
- Salt/pipar
Verklýsing
- Kjötið skorið í þunnar sneiðar
- Pakkasósa útbúin eða heimagerða sósan mýkt varlega upp (hún getur auðveldlega ystað annars). Laukur og sveppir snöggsteiktir og hamborgarabrauðið hitað í samlokugrillinu
- Kjötsneiðarnar snöggsteiktar á heitri pönnunni
- Bernaisesósan sett á annan brauðhelminginn… síðan kjöt, laukur, sveppir og svo kannski smá salat… aftur sósa og samlokunni er lokað með hinum helmingnum