Ljúffengur lax/silungur með engiferkryddblöndu og dillkartöflum

Ljúffengur lax/silungur með engiferkryddblöndu, stöppuðum dillkartöflum og kryddsósu

 • Servings: 4 - 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Uppskriftin er sambland úr nokkrum uppskriftum. Mér finnst kryddblandan góð á lax en ég kaupi líka silungaflök ef þau eru til.  Þetta er frábær blanda sem er tiltölulega fljótlegt að útbúa t.d. ef halda á matarboð með stuttum fyrirvara eða bara þegar á að elda góðan mat og tíminn er naumur. Kalda kryddsósan er mjög góð með en ekki nauðsynleg.

 

Hráefni

Lax/silungur með engiferkryddblöndu

 • 1 kg flök af lax eða silung
 • Börkur af lífrænni límónu – rifinn fínt
 • 2 – 3 msk olía
 • 1½ – 2 msk fersk mynta – söxuð
 • 1¼ msk engifer – rifið fínt
 • 1½ – 2 tsk saltflögur

 

Stappaðar kartöflur með dilli

 • 700 – 800 g kartöflur
 • 70 g smjör
 • 1 tsk saltflögur
 • 2 – 3 tsk þurrkað dill eða 3 msk saxað ferskt dill

Köld kryddsósa

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1 dl rjómaostur
 • ½ dl fersk steinselja – söxuð
 • ½ dl graslaukur – saxaður
 • Ögn af sojasósu
 • Saltflögur og nýmalaður pipar

Verklýsing

Lax/silungur með engiferkryddblöndu

 1. Olíu, myntu, engiferi og fínrifnum límónuberki blandað saman í skál. Laxinn/silungur lagður á bakka, saltaður og kryddblöndunni dreift yfir. Grillað í u.þ.b 10 – 15 mínútur eða þar til að hann er nokkurn veginn tilbúinn.  Eldunartíminn er háður stærð flaksins/bitanna en einnig er smekksatriði hversu mikið hann á að vera eldaður

 

Stappaðar kartöflur með dilli

 1. Kartöflurnar þvegnar og soðnar í léttsöltuðu vatni í u.þ.b. 20 mínútur. Vatninu hellt af og kartöflurnar látnar aðeins jafna sig. Smjörið brætt í potti þar til það verður aðeins brúnt (alls ekki láta það brenna) – því er svo hellt yfir kartöflurnar sem eru stappaðar saman við smjörið.
 2. Dilli bætt saman við og saltað

Köld kryddsósa

 1. Allt hráefni sett í skál og hrært vel saman

 

Meðlæti: Ferskt salat og límónubátar.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*