Pylsur í felum – upplagt í barnaafmælið

Pylsur í felum – upplagt í barnaafmælið

 • Servings: /Magn: u.þ.b. 60 - 70 bitar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Brauðuppskriftina fékk ég upphaflega hjá Eriku en þessi grunnuppskrift er sérstaklega góð og auðveld. Hef gert ýmsar útgáfur af henni og er þetta ein þeirra. Pylsur í felum er þetta kallað hér á bæ – ef þær eru í barnaafmæli hverfa þær allar um leið. Pylsur í felum er hægt að baka einhverju áður en mikilvægt að velgja þær aðeins rétt áður en þær fara á borðið.

Hráefni

 • 1 bréf þurrger (ca. 12 g)
 • ½ lítri mjólk
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt
 • 10 – 13 dl hveiti – hægt að minnka það magn  og setja gróft korn, heilhveiti eða spelt í staðinn
 • 60 – 70 stk koktailpylsur

Verklýsing

 1. Þurrger og salt sett í skál
 2. Mjólk og hunang hitað (37°C) og hellt í skálina.  Hrært í með sleif (Gerbakstur – góð ráð)
 3. Hveiti er bætt við og hnoðað saman. Betra að deigið sé ekki allt of blautt þar sem þá er erfiðara að eiga við það en að sama skapi er ekki gott að það verði of þurrt. Ágæt þumalfingursregla er að það sé mátulegt þegar hægt er að pota með fingri í það án þess að deigið festist við hann
 4. Rakur klútur settur yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur
 5. Ofninn stilltur á 225°C
 6. Eftir klukkustund ætti deigið að hafa tvöfaldað stærð sína.  Síðan er það sett á hveitistráða borðplötu og bútað niður í jafnstóra bita u.þ.b. 18 – 20 g – ágætt að hafa vog
 7. Hver biti rúllaður í ræmu og henni vafið utan um kokteilpylsuna – passa að festa endann vel þannig að deigið haldist kyrrt utan um pylsuna
 8. Bakað í u.þ.b. 5 – 9 mínútur eða þar til brauðið er bakað í gegn

Meðlæti

Tómatsósa, pylsusinnep, sætt sinnep eða dijon. Heimagerð tómatsósa er mjög góð með.

Geymsla

Pylsur í felum eru bestar nýbakaðar. Ennþá hafa þær ekki komist í frystinn hjá mér en þær geymast örugglega vel þar.

IMG_5584

IMG_5542

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*