Frískandi jarðarberjamús með sítrónukeimi
Uppruni
Þessa uppskrift fann ég í blaði og ákvað að nota í hana síðbúna jarðarberjauppskeru þetta árið.
Forvinna
Jarðarberjamúsin þarf að standa í kæli yfir nótt.
Hráefni
- ½ l jarðarber
- Börkur af 1 sítrónu – rifinn fínt
- 1½ stk matarlím
- 1 dós sýrður rjómi
- 1 dl rjómi
- ½ dl sykur
- 1 tsk vanillusykur
Til skrauts
- Jarðarber
- Marengskurl
- Mynta
Verklýsing
- Jarðarber hreinsuð og sett í skál með háum börmum – ágætt að nota könnu. Nokkur ber tekin frá fyrir skrautið
- Jarðarber maukuð með töfrasprota og rifnum sítrónuberki bætt við
- Matarlím sett í kalt vatn og látið liggja í 5 mínútur
- Sýrður rjómi, rjómi, sykur og vanillusykur sett í pott og hitað. Varast að hita of mikið en sykurinn þarf að ná að bráðna
- Matarlím kreist og sett í pottinn – blandað saman. Jarðarberjamaukinu blandað saman við með því að hella úr pottinum i skálina/könnuna. Kosturinn við könnuna er að þá er auðvelt að hella maukinu í litlar skálar á eftir
- Látið standa í kæli yfir nótt – plastfilma sett yfir
- Skreytt með jarðarberjum, myntu og ögn af marengskurli ef til er
Meðlæti
Sumum finnst gott að hafa þeyttan rjóma með.
