Lasagna með miklu grænmeti

Lasagna með miklu grænmeti

 • Servings: fyrir 10
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Grunnuppskriftin kemur frá mömmu en lasagna er aldrei eins hjá mér þar sem ég tíni oft úr ísskápnum bæði grænmeti og ávexti sem liggja þar undir skemmdum. Oft kaupi ég sellerírót og gulrætur eru alveg nauðsynlegar. Þessi uppskrift er margfalt auðveldari og fljótlegri en Ítalskt lasagna. Stundum mauka ég allt grænmetið í matvinnsluvél/blandara – stundum ekki – fer svolítið eftir því hverjir eru í mat.

Forvinna

Hægt að gera tilbúið daginn áður eða byrja á einhverju til þess að flýta fyrir.

Hráefni

Grænmetiskjötsósa

 • 500 g íslenskt nautahakk
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 laukur
 • Tæplega ½ sellerírót – rifin fínt
 • 2-3 gulrætur – rifnar
 • Slappt grænmeti úr grænmetisskúffunni
 • Þroskuð pera eða epli – ef til eru
 • 1 flaska/dós maukaðir tómatar
 • 2 -3 msk tómatpúrra
 • Salt og pipar
 • Olía til steikingar

Bechamelsósa

 • Rúmlega 1 dl olía
 • 2 dl hveiti
 • Rúmlega 1,5 l mjólk
 • Ostar sem liggja undir skemmdum (ef til eru)
 • Smá múskat

Samsetning

 • U.þ.b. 450 g lasagnaplötur
 • Rifinn ostur
 • Parmesanostur
 • Oreganó
 • Saltflögur og pipar

Verklýsing

Grænmetiskjötsósa

 1. Hakk steikt á pönnu á meðalhita og sett til hliðar
 2. Laukur og hvítlaukur saxaðir smátt – hitað á pönnu við meðalhita og látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur
 3. Grænmeti saxað og rifið – sett á pönnuna. Maukuðum tómötum og tómatpúrra bætt við. Látið malla í 15 mínútur
 4. Ef ég er með mikið af grænmetisafgöngum mauka ég það í matvinnsluvél/blandara. Þá er líka öruggt að allir gikkirnir á heimilinu borði matinn með bestu lyst. Ef ég er bara með rifnar gulrætur og sellerírót sleppi ég því að mauka grænmetið. Það gefur skemmtilegri áferð
 5. Kjöt og grænmetismauk (eða grænmeti) blandað saman og látið malla á meðan sósan er löguð. Gott að smakka og krydda en þessi réttur er yfirleitt ekki bragðsterkur hjá mér

 

Bechamelsósa

 1. Olía sett í pott og hituð – hveiti bætt út í og hrært vel saman. Gott að láta hitna vel.
 2. Mjólk bætt við – hrært í vel og vandlega. (Mjög auðvelt að láta mjólk brenna við). Láta suðuna koma upp og hræra stöðugt í. Bragðbæta með rifnum muskat
 3. Afgangar af ostum gera sósuna bara enn þá betri

 

Samsetning

 1. Ofninn hitaður í 165° – 170°C (blástur)
 2. Bechamelsósan sett neðst í eldfast mót og fyrsta lagið af lasagnaplötum lagt ofan á. Grænmetiskjötsósu hellt yfir. Þá kemur lag af Bechamelsósu og osti stráð yfir. Síðan lasagnaplötur, kjötsósa og bechamelsósa til skiptis. Að lokum er parmesanosti stráð yfir.  Oft þarf ég að setja í tvö eldföst mót.
 3. Bakað í ofni í 45 – 55 mínútur – ef yfirborðið er orðið dökkt er gott að leggja álpappír yfir
 4. Látið standa aðeins eftir að það er tekið úr ofninum. Gott að strá nýmuldum pipar og saltflögum yfir

 

Meðlæti

Borið fram með fersku salati og nýbökuðu brauði eins og t.d. Hvítlauks- og ólífubrauði.


Notaði mikið af grænmeti úr ísskápnum – ákvað því að mauka sósuna og blanda við hakkið.

IMG_1448

 


Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*