Heslihnetukaka með súkkulaði

Heslihnetukaka með súkkulaði

  • Servings: fyrir 8 - 10
  • Difficulty: flókið
  • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fann ég í sænsku blaði fyrir nokkrum árum. Það er skemmtilegt að baka kökuna og hún er girnileg. Hún er hins vegar mjög þétt í sér og tilvalið að bjóða upp á hana ef von er á mörgum gestum. Betra að eiga ekki of mikinn afgang.

Forvinna

Tilvalið að rista heslihneturnar (325 g auk 5-10 til skreytingar) daginn áður – og mala í leiðinni í matvinnsluvél það sem þarf að mala. Það er líka upplagt að búa núggatkremið til daginn áður.

Hráefni

Botnar

  • 175 g heslihnetur
  • 175 g smjör
  • 6 stórar eggjahvítur
  • 2½ dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 3 dl flórsykur
  • ½ dl púðursykur

Núggatkrem

  • 100 g heslihnetur
  • 100 g dökkt súkkulaði – 70%
  • 50 g mjólkursúkkulaði
  • 1½ dl mjólk
  • 1 msk hunang
  • Salt á hnífsoddi

Núggatrjómi

  • 3 dl núggatkrem
  • 3 dl rjómi

Karamelluhjúpaðar heslihnetur

  • 50 g heslihnetur
  • ½ dl sykur

Súkkulaðikrem

  • 150 g dökkt súkkulaði – 70%
  • 200 g ósaltað smjör
  • 3 dl flórsykur
  • 1½ dl kakó
  • ½ tsk vanillusykur
  • 3-4 msk sterkt kaffi

Hnetuskraut

  • 5-10 heslihnetur
  • 1 dl sykur

Verklýsing

Heslihnetur ristaðar

  1. Ofninn hitaður í 175°C og allar heslihnetur ristaðar í ofnskúffu (gæti þurft tvær)  í 12 -15 mínútur. Gæta þess að þær brenni ekki – það getur gerst snögglega
  2. Hneturnar settar á viskustykki og nuddaðar þar til það mesta af hýðinu er farið. Fínmala hneturnar í matvinnsluvél – í tvennu lagi – ekki mala of lengi. Hnetunum sem á að mala er skipt upp í 175 g og 100 g. (Heslihneturnar, sem á að nota til skrauts og 50 g í karamelluhnetunum, á ekki að mala)

 

Núggatkrem

  1. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og möluðu hneturnar settar út í – hrært saman þar til það verður að kremi
  2. Mjólk, hunang og salt hitað að suðu – látið kólna aðeins í nokkrar mínútur og hellt yfir súkkulaðihnetukremið – hrært saman þar til kremið verður slétt. Sett í skál og látið kólna í kæli

 

Botnar

  1. Tvö bökunarform ca. 15 – 20 cm að þvermáli – smurð og hveitistráð
  2. Smjör brætt og látið standa og kólna aðeins
  3. Eggjahvítur þeyttar þar til þær verða hvítar og stífar. Hveiti, kakó, flórsykur og púðursykur sigtað saman við. Hrært varlega
  4. Smjöri og hnetum blandað saman við og sett í formin. Bakað í u.þ.b. 30-35 mínútur. Ef formin eru nær 20 cm er bökunartíminn aðeins styttri

 

Núggatrjómi

  1. Rjómi þeyttur – frekar stíft og núggatkreminu bætt við – þeytt saman

 

Karamelluhjúpaðar heslihnetur

  1. Sykur hitaður á pönnu. Hræra gætilega um leið og sykurinn byrjar að bráðna á köntunum – hræra áfram þar til sykurinn hefur bráðnað og er orðinn gullinbrúnn. Sykrinum hellt yfir hneturnar og látið kólna
  2. Sykurhneturnar hakkaðar í litla bita

 

Súkkulaðikrem

  1. Súkkulaði brætt í vatnsbaði eða í örbylgjuofni – látið kólna
  2. Smjör þeytt þar til það verður ljóst og kremað. Flórsykri og kakói bætt út í – lítið í einu þar til blandan verður jöfn
  3. Brætt súkkulaði og vanillusykur sett út í
  4. Kaffi bætt við – matskeið í einu og þeytt í nokkrar mínútur

 

Hnetuskraut

  1. Grillpinna stungið í hverja og eina hnetu – breiðari endi hnetunnar notaður til að stinga í (sjá mynd fyrir neðan)
  2. Sykur hitaður á pönnu þar til hann er bráðnaður og gullinbrúnn. Gæta þess að hann getur orðið mjög heitur og auðvelt að brenna sig. Pannan tekin af hitanum og beðið aðeins þar til sykurinn hefur þykknað – það gerist fljótt þannig að betra að hafa hraðar hendur
  3. Hnetunum dýft í bráðinn sykurinn og er hver og ein hneta vel þakin. Haldið kyrru á meðan sykurinn rennur af
  4. Ef sykurinn er orðinn of harður má hita hann aftur til að hjúpa fleiri hnetur
  5. Best er að hafa aðstoðarmann til að halda í grillpinnana á meðan sykurinn harðnar. Ef hann er ekki á staðnum má leggja pinnana á borðenda, setja þungt ofan á og láta harðna
  6. Grillpinnar losaðir varlega af

 

Samsetning

  1. Hverjum botni skipt í tvennt – gott að skera með hnífi að miðju og snúa
  2. Fyrsti botninn lagður á tertufat og núggatrjóma smurt á. Karamelluhnetum stráð yfir. Þetta er endurtekið þar til þrír botnar eru komnir á fatið
  3. Síðasti botninn er settur ofan á – skorna hliðin látin snúa niður
  4. Þunnt lag af súkkulaðikremi smurt yfir alla kökuna og hún sett í kæli í u.þ.b. 20 mínútur
  5. Afgangi af súkkulaðikreminu smurt á kökuna. Skeið notuð til að móta fallegar bylgjur
  6. Skreytt með hnetuskrautinu

IMG_0884

IMG_0618

Meðlæti

Borið fram með þeyttum rjóma.



Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*