Tiramisu með jarðarberjum
Uppruni
Þennan eftirrétt fékk ég á veitingahúsi á Ítalíu. Hann er góður og frískandi. Það er annað hvort hægt að setja hann í stóra skál eða skammta í 5 – 6 litlar skálar. Það má einnig gera mismunandi útgáfur
Forvinna
Hægt að útbúa mascarponekremið aðeins áður. Það er hægt að hafa réttinn tilbúinn áður en best að bíða með jarðarberin ofan á þangað til í lokin svo að þau verði fersk og fín.
Hráefni
Ath. Það eru tvær útgáfur af ídýfu til að dýfa Ladyfingers ofan í … útgáfa 1 eða 2. Fyrir þá sem vilja sleppa áfenginu geta bara haft ananassafann eða blandað honum og ástaraldinum saman
- Askja af íslenskum jarðarberjum (ef önnur íslensk ber eru í boði er upplagt að bæta þeim við)
- 3 egg
- 3 msk sykur
- Smá salt
- 250 g mascarpone – látinn standa úti áður svo að hann sé við stofuhita. Upplagt að nota heimagerðan Mascarpone
- Tæpur ½ dl rjómi
- ½ – 1 pakki ladyfingers kex
- Útgáfa 1 Ananassafi úr dós eða ½ dl ananassafi og 1 – 3 msk Cointreau Orange. Útgáfa 2 2 – 3 msk Limoncello og 1 – 2 ástaraldin (passion fruit)
- Skraut: mynta, ber og svo má mylja saman sykur og myntu og strá yfir
Verklýsing
- Útfáfa 1 (Ananassafa og Cointreau) eða útgáfa 2 (Limoncellog ástaraldin) blandað saman í skál
- Eggjahvítur stífþeyttar með saltinu
- Eggjarauður hvítþeyttar með sykrinum
- Rjómi þeyttur
- Mascarpone ostinum hrært varlega saman við rjómann (Ekki hræra ostinn of mikið – blandan getur orðið kornótt)
- Ostablöndunni blandað saman við eggjarauðuhræruna og eggjahvítur settar varlega í síðast
Samsetning – stór skál
- Jarðarber skorin í sneiðar
- Kexi dýft ofan í útgáfu 1 eða 2 og raðað í botninn á glerskál (einnig hægt að setja á hliðarnar). U.þ.b. ¼ af jarðarberjasneiðunum raðað á hliðar og í botn skálarinnar
- Helmingur af ostablöndunni settur yfir
- Kexi dýft ofan í ananasblönduna og raðað á ostablönduna ásamt ¼ hluta af jarðarberjasneiðunum
- Afgangi af ostablöndunni hellt yfir og jarðarberjasneiðum raðað ofan á
Samsetning – 5 – 6 skálar
Það er smekksatriði hve mikið er sett í skálarnar og hver hlutföllin eru.
- 1 – 2 stk kexum dýft ofan í ananasblönduna og lagt í skálina
- Nokkur jarðarber – skorin til helminga/báta og sett hjá kexinu
- Ostablöndu hellt ofan á – ekki þarf að hylja kexið nema að hluta
- Skreytt með jarðarberjum og/eða brómberjum og myntu
Geymsla
Alveg ágætt daginn eftir þó að jarðarberin gætu aðeins hafa látið á sjá.