Hvernig er jólastjarnan þín?

Jólastjarna með þínu uppáhaldi

 • Servings: /Magn: 12 - 14 bitar
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Á aðventunni er alltaf gaman að koma með eitthvað sem er bæði jólalegt og gott. Þessa jólastjörnu má gera í ýmsum útgáfum … bara svona eftir því hvað er í uppáhaldi hjá hverjum og einum.   Ef jólastjarnan á að vera extra jólaleg má setja aðeins af saffran í deigið – þá fær það gulan blæ og þennan skemmtilega lúsíukeim.

Hráefni

 • 1½ – 2 tsk þurrger
 • 2½ dl mjólk
 • 1  egg (hrært – helmingur settur í deigið og afgangurinn notaður til að pensla stjörnuna)
 • 3/4 dl sykur
 • ½ tsk salt
 • 60 g smjör
 • 6 – 7 dl hveiti
 • ½ tsk steytt kardimomma (sérstaklega þegar kanilsnúðafylling er valin)

 

Ath. hægt er að nota hugmyndaflugið og gera ýmsar útgáfur af fyllingu – hér koma nokkrar hugmyndir:

Pistasíufylling

 • 1½ dl pistasíuhnetur (saxaðar mjög smátt eða muldar í matvinnsluvél)
 • 1½ dl kókosflögur
 • ½ dl sykur
 • 50 g smjör – mjúkt

 

Kanilsnúðafylling

 • 1½ dl sykur
 • 1½ tsk kanill
 • 50 g smjör – mjúkt

 

Nutellafylling

 • 1½ – 2 dl Nutella

 

Skraut

 • perlusykur
 • flórsykur
 • afgangur af pistasíufyllingu

 

 

Verklýsing

 1. Smjör sett í pott og brætt. Þegar smjörið er bráðnað er mjólkinni hellt út í og slökkt á hitanum. Hrært – þá ætti blandan að vera orðin mátulega heit. Þurrger sett í skál ásamt mjólkurblöndunni (alls ekki heitari en 37°C), ½ eggi, sykri og salti – öllu blandað saman.  Hveiti hrært saman við – lítið í einu og hnoðað.  Klútur settur yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund eða yfir nótt í kæli (þá er betra að nota lokað ílát eða setja plastfilmu yfir skálina)
 2. Deigið tekið úr skálinni og skipt í 3 hluta. Hver hluti er flattur út í hring sem er 24 – 25 cm í þvermáli (ef deigið hefur verið í kæli er betra að láta það jafna sig við stofuhita í góða stund)
 3. Fylling sett á tvo hringi.  Best að setja fyrsta hringinn á bökunarpappír og strá eða smyrja helmingnum af fyllingunni yfir (gott að dreifa fyrst úr smjörinu ef það er með).  Næsti hringur lagður yfir og því sem eftir er af fyllingu stráð/dreift yfir hann. Síðasti hringurinn lagður efst
 4. Skál/glas sett í miðjuna og deigið skorið í 16 jafnar lengjur (sjá mynd) út frá glasinu. Hver lengja er rúlluð upp og tvær og tvær tengdar saman. Stjörnulaga kökuform sett í miðjuna þar sem skálin/glasið var og forminu þrýst mjög vel niður – látið liggja kyrrt á meðan á hefingu stendur
 5. Klútur eða viskustykki lagt yfir og látið hefast í 1 klukkustund (má einnig setja í kæli og baka morguninn eftir). Ofninn hitaður í 200°C (blástur)
 6. Stjörnuformið tekið og kransinn penslaður með því sem eftir er af egginu.  Ef perlusykur er notaður er honum stráð yfir og jólastjarnan bökuð í 15 – 20 mínútur. Látin kólna – ef flórsykur er notaður er honum stráð yfir í lokin

 

 

Smjörið brætt og mjólk blandað saman við

 

Deigið búið að hefast fyrstu hefingu og skipt í 3 hluta

Þessi stjarna verður með pistasíufyllingu

 

Stjarnan í vinnslu
 

 

Stundum getur verið fallegra að skera aðeins nær stjörnunni J

 

Seinni hefing

Jólastjarna með kanilsnúðafyllingu tilbúin í ofninn

 

 

 

Deig með saffrani og Nutella og kúlusúkk fyllingu

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*