Búri ostabræðingur kynntur til leiks

Bræddur Búri í smábrauði með hunangi og chiliflögum

  • Difficulty: auðvelt
  • Print

Uppruni

Þessi ostabræðingur er hugmynd frá henni Drífu en hún bar hann fram í litlum Hönnupotti.  Þetta var alveg glimrandi gott og sniðugt að bjóða upp á sem smárétt þegar von er á gestum.  Um daginn var ég með veislu og datt í hug að baka lítið súrdeigsbrauð í litlum Hönnupotti og bera ostabræðinginn fram í því. Það kom vel út og er fallegt á borði.  Ef osturinn klárast í brauðinu er minnsta málið að setja aftur ost ofan í brauðið og inn í ofn.  Ég hef einnig prófað að baka smábrauð úr súrdeigspizzudeigi sem ég átti afgang af.  Einnig má alveg baka litla gerbrauðsbollu og/eða nota lítinn pottaling til að bera fram í .. bara það sem hentar best.

Forvinna

Brauðbolluna má búa til daginn áður – eins má hafa réttinn tilbúinn töluvert áður og þá er bara eftir að skella honum inn í ofninn.

Hráefni

  • Búri
  • Chiliflögur
  • Hunang
  • Einnig þarf eitt smábrauð eða lítið fallegt ílát eins og t.d. pottaling sem þolir að fara í heitan ofn

Verklýsing

  1. Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti).  Einnig má líka stilla á grill
  2. Ef brauð er notað er hringur skorinn ofan í það og brauðið losað innan úr – sjá myndband
  3. Búrinn skorinn í bita sem eru settir ofan í brauðkúluna (eða í lítið ílát).  Hunangi og chili er dreift yfir þegar helmingurinn af ostinum er kominn ofan í og svo aftur í lokin.  Það er persónubundið hversu mikið af chili og hunangi  skal nota.  Það má alveg fylla holuna vel af osti
  4. Ef brauðið er bakað í litlum potti má nota hann aftur til að setja brauðið inn í ofninn en einnig má bara setja brauðið á grind í ofninum.  Látið vera í ofninum í u.þ.b. 10 mínútur eða þangað til osturinn hefur bráðnað
  5. Borið fram með kexi eða brauði.  Ath. ef osturinn klárast er ekkert mál að fylla brauðið aftur og setja inn í ofn á ný

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*