Fiskisúpa – tær snilld

Létt og góð fiskisúpa með sítrónuaioli

  • Servings: 5
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Ég bjó þessa fiskisúpu til um daginn og fannst hún mjög góð. Prófaði svo að laga hana með tilbúnum fiskikrafti og smakkaðist hún líka mjög vel þannig.  Sítrónuaiolið gerir mikið fyrir súpuna og er alveg bráðnauðsynlegt með. Ég geymi oft humarskeljar í frysti til að eiga fyrir soðgerð. Hægt að nota ferskar rækjur og búa til soð úr skeljunum. Ef tíminn er naumur eða engar skeljar í boði er líka hægt að nota fiskisoð.  Mæli algjörlega með þessari súpu á köldum vetrardegi.

Ath. Það er alltaf gott að taka frosinn fisk og rækjur úr frysti daginn áður og láta það þiðna rólega í kæli.

Forvinnsla

Hægt er að gera soðið áður og einnig súpuna nokkrum klukkustundum fyrr þannig að eingöngu eigi eftir að hita hana og setja fiskinn og rækjurnar út í. Sítrónuaioli má gera daginn áður eða fyrr um daginn.

Hráefni

Súpa

  • Heimagert soð:
    • Skel af humri/rækjum
    • 4 msk olía
    • 2 msk tómatpúrra
    • 3 – 4 dl hvítvín
    • 12 dl vatn
  • Ef notaður er tilbúinn kraftur er hann settur í ásamt 12 dl af vatni (setti u.þ.b. 2 msk fiskikraft – sjá umbúðir)
  • 700 g þorskhnakki (eða annar sambærilegur fiskur) – skorinn í bita
  • 250 g  rækjur
  • 3 skarlottulaukar – skornir smátt
  • 1 stk fennel – skorið í þunnar sneiðar
  • 2 – 3 gulrætur – skornar í litla bita
  • 2 – 3 hvítlauksrif – skorin smátt eða pressuð
  • 2 – 3 vorlaukar – skornir í þunnar sneiðar
  • 1 tsk fennelfræ – mulin í morteli ( eða ½ tsk steytt fennel)
  • ½ tsk chiliflögur
  • 1 flaska tómatpasata (maukaðir tómatar)
  • 1 tsk salt
  • 2 dl steinselja
  • 2 – 3 msk sambuca (má sleppa)

 

Sítrónuaioli – má helminga magnið en smekksatriði hversu mikið hver og einn vill 

  • ½ rauður chilipipar – fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1 hvítlauksrif – pressað
  • 1 msk sítrónusafi
  • 2 eggjarauður
  • 2½ dl olía (gott að nota eingöngu rapsolíu eða sambland af henni og annarri olíu )
  • ½ – 1 tsk sítrónubörkur – rifinn
  • Saltflögur
  • Nýmalaður hvítur pipar

Verklýsing

  1. Soð: Skelin tekin og steikt í 2 – 3 mínútur í olíu/smjöri á pönnu. Tómatpúrru bætt við og víni og vatni hellt út í. Látið sjóða undir loki í 20 mínútur.  Soðið sigtað frá og skelinni hent. Ef soðið er ekki útbúið er notaður 1,2 lítri af tilbúnu soði (12 dl vatn og fiskiteningur/duft)
  2. Laukur, fennel og gulrætur steiktar í 2 msk af olíu í potti í u.þ.b. 3 mínútur. Hvítlauk, vorlauk,  fennelfræjum og chilifræjum bætt við.  Látið steikjast í 2 – 3 mínútur
  3. Tómatpasata og fiskisoði bætt við – látið sjóða í 15 mínútur – saltað. Ath. Geyma rækjurnar og fiskbitana í kæli á meðan súpan er útbúin.  Gott að setja vökvann, sem rennur af fiskinum, út í súpuna
  4. Sítrónuaioli: Hvítlaukur, sítrónusafi og eggjarauður þeytt saman. Olíu hellt í mjórri bunu og þeytt áfram þar til áferðin verður eins og majones. Chilipipar og sítrónuberki bætt saman við ásamt salti og pipar
  5. Súpan látin ná suðu og fiskurinn settur út í. Látið krauma í u.þ.b. 4 mínútur (háð stærð fiskbitanna). Sambuca bætt við
  6. Súpan tekin af hellunni og rækjurnar settar út í. Skreytt með steinselju

Meðlæti: Nýbakað brauð  eins og t.d. súrdeigsbrauð, fljótlegar brauðbollur, sólarhringsbrauð eða einfaldar naan bollur.

Geymsla:  Geymist í kæli og er góð að hita upp daginn eftir.

 

 

Sítrónuaioli í vinnslu

Eingöngu eftir að setja fiskinn og rækjurnar í súpuna

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*