Hunangsrúlluterta – góður skammdegisvermir

Hunangsrúlluterta - einföld og góð

 • Servings: /Magn: 10 - 12 sneiðar
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Er von á gestum og tíminn naumur? …. þá er rúlluterta málið…ekki spillir fyrir hvað rúllutertur eru almennt ljúffengar.  Ég hef gaman af því að prófa nýjar útgáfur og fékk þessa uppskrift hjá Dagnýju vinkonu minni en amma hennar bakaði þessa köku oft.  Þá setti hún líka rabarbarasultu á milli en ég sleppti því þar sem ég á enga slíka sultu í ísskápnum   Þessi er ólík þeim sem ég hef gert áður – hún er meira krydduð og minnir mig skemmtilega á að jólin eru á næsta leiti.  Mæli með því að æfa sig í rúllutertum – auðveldara og ódýrara en að fara og kaupa eitthvað tilbúið í eftirrétt. Fleiri útgáfur af rúllutertum má sjá hér.

Hráefni

Botn

 • 100 g sýróp
 • 50 g sykur
 • 125 g hveiti
 • 1 tsk engifer
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk kanill
 • 1 msk súrmjólk
 • 1 tsk kardimomma
 • 2 egg
 • ½ tsk salt

 

Krem

 • 150 g smjör við stofuhita
 • 2 dl flórsykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 eggjarauða

Verklýsing

 1. Ofninn hitaður í 200°C (blásturstilling)
 2. Allt hráefni í botninn sett í skál og þeytt
 3. Deigið sett á smurðan bökunarpappír (olía eða smjör) í ofnskúffu – dreift jafnt út
 4. Bakað í 6 – 8 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með þar sem kakan er fljót að verða dökk
 5. Hvolft á sykurstráðan bökunarpappír. Pappírinn dreginn af og ofnskúffan látin yfir á meðan kakan kólnar

 

Smjörkrem

 1. Smjör og sykur þeytt saman
 2. Vanillusykri bætt í og síðast eggjarauðu – þeytt saman

 

Samsetning

 1. Smjörkremið sett á kökuna – gott að nota spaða eða hníf.  Þeir sem vilja geta dreift rabarbarasultu yfir smjörkremið
 2. Kökunni rúllað upp – það getur verið fallegt að skreyta með flórsykri.  Mér finnst best að bera kökuna fram við stofuhita en það er smekksatriði hvort tertan sé betri köld en þá er smörkremið harðara
 3. Góð ein og sér en líka með rjóma og/eða smá sultu

 

Geymsla:  Best nýbökuð en líka góð daginn eftir.

Smjörkrem í vinnslu

Samsetning

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*