Himneskar halloumibollur

Gómsætar grænmetisbollur með halloumi osti og harissa sósu

  • Servings: /Magn: 20 - 25 bollur
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessar bollur lærði ég að gera á matreiðslunámskeiði hjá Sabínu og fannst þær standa algjörlega upp úr. Uppskriftin er tiltölulega einföld og þægileg – smá bras að steikja þær í fyrsta skipti en svo ekkert mál. Það má segja að þessar bollur séu bæði barn- og karlvænar þar sem þær féllu vel í kramið hér á bæ en það getur verið allur gangur á því hversu vel grænmetisréttum er tekið sem aðalrétti. Þessi hentar bæði sem aðalréttur en er líka mjög sniðugur sem forréttur eða smáréttur á veisluborðið.

Forvinna

Upplagt að búa harissa sósuna til daginn áður og geyma hana í kæli.

Hráefni

Bollur

  • 250 g gulrætur – rifnar gróft
  • 250 g halloumi ostur – rifinn gróft
  • 1 egg
  • 2 tsk þurrkað dill (eða 2 msk ferskt dill)
  • 3 msk hveiti
  • 2 tsk cumin fræ
  • 1 tsk paprikuduft (ekki reykt)
  • Salt og pipar
  • 3 – 4 dl hitaþolin olía (t.d. sólblómaolía) til steikingar

 

Harissa sósa

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 msk harissa mauk (fæst t.d. í Hagkaup)
  • 3 – 4 dropar tabascosósa
  • Sletta af sítrónusafa

 

Verklýsing

Bollur

  1. Ofninn hitaður í 150°C
  2. Allt hráefni sett í skál og hnoðað saman með hnefanum – sjá myndband
  3. Kúlur mótaðar með höndunum í svipaða stærð og rúmar í einni matskeið
  4. Olían hituð á pönnunni og bollurnar steiktar (hálf djúpsteiktar) í 2 – 3 mínútur á frekar háum hita. Snúa þeim við þannig að þær brúnist báðum megin
  5. Bollurnar settar í eldfast fat (ágætt að láta olíuna drjúpa af þeim á eldhúspappír).  Bollurnar látnar aðeins jafna sig í ofninum – eða þar til þær eru bornar fram

 

ATH.  Það fer svolítið eftir hitanum á olíunni hversu vel þær steikjast í gegn.  Ef olían er heit og bollurnar verða mjög fljótt dökkar þurfa þær að fara inn í ofn í nokkrar mínútur.  Ef hitinn er lægri tekur það lengri tíma af fá fallegan lit á þær – stundum finnst mér þær verða minna stökkar en þetta er allt smekksatriði og um að gera að prófa sig áfram.

 

Harissa sósa

  1. Öllu hráefni blandað saman

 

Meðlæti: Sem forrétt eða smárétt er fallegt að bera fram sneið af volgri tortillu með, harissa sósu og skreyta með ferskri kryddjurt.  Sem aðalrétt má bera fram volgar tortillur, hrísgrjón og ferskt salat með eða bara það sem hverjum og einum finnst gott.

 

~

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*