Þessir snúðar eru lostæti

Snúðar með keim af appelsínu, kókos og hvítu súkkulaði

 • Servings: /Magn: 20 – 24 stk
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Eitt af því besta sem ég fæ eru heimabakaðir snúðar og mér finnst gaman að breyta til og baka nýjar útfærslur af þeim. Þessir snúðar eru bara eins og heimsins bestu snúðar – skemmtilega góðir. Ég veit að sumum finnst það vera vinna og tímafrekt að baka snúða en eftir nokkra tilraunabakstra verður þetta bara einfaldara.  Það eina sem snúðabaksturinn krefst er viðvera heima í rúmar tvær klukkustundir eða u.þ.b. ein bíómynd.  Þegar maður kemst upp á lagið með að baka snúða er ekki aftur snúið …..það er jafnvel hægt að tvinna saman gláp og bakstur.

Forvinnsla

Snúðarnir eru bestir nýbakaðir.  Þeir eru samt næstum því jafngóðir úr frystinum ef þeir eru settir þangað nýbakaðir (verða samt að kólna áður).  Það er því upplagt að eiga þessa snúða í frysti.  Þá þarf bara að velgja þá aðeins í orbylgjuofninum eða ofan á brauðristinni.  Eins er sniðugt að taka þá tímanlega út þannig að þeir nái að þiðna í rólegheitum við stofuhita.

Hráefni

Deig

 • 1½ – 2 tsk þurrger
 • 2 dl mjólk
 • 75 – 80 g smjör
 • 1 egg
 • 3 msk sykur
 • ½ tsk salt
 • 6 – 7 dl hveiti

Fylling – á báða helminga

 • 80 g smjör – við stofuhita (40 g á annan helming)
 • ½ dl sykur
 • 1 dl kókosmjöl
 • 80 – 90 g hvítt súkkulaði – saxað
 • 2 tsk börkur af lífrænni appelsínu – rifinn fínt

Penslun og skraut

 • Egg – við stofuhita
 • Ögn af salti
 • Perlusykur (má sleppa)

 

 

Verklýsing

 1. Smjörið brætt í potti og mjólk hellt út í. Stundum næst máturlegur hiti þannig en blandan má ekki vera heitari en 37°C (Gerbakstur – góð ráð) Stundum gleymi ég að taka eggið úr ísskápnum og þá set ég það ofan í mjólkurblönduna til að það fari ekki ískalt í deigið
 2. Ger, sykur og salt sett í skál og blandað saman. Mjólkurblöndunni hellt í skálina – ágætt að hræra saman með sleikju. Nokkrum dl af hveiti er blandað saman við og hrært í með sleikju. Ef eggið er ekki þegar komið í deigið er upplagt að setja það í núna
 3. Afgangi af hveiti bætt við og hnoðað þar til deigið verður þannig að hægt sé að koma við það án þess að það klístrist mikið við fingurna – passa samt að hafa það ekki of þurrt
 4. Plastfilma eða rakur klútur settur yfir skálina og látið hefast í 45 mínútur – 1 klukkustund
 5. Fylling: Smjör aðeins mýkt – ekki of mikið (þá lekur það frekar). Bara svo að það sé auðveldara að dreifa úr því. Öllu öðru hráefni blandað saman í skál
 6. Deiginu er skipt í tvennt – annar helmingurinn flattur út (ca 25×45 cm)
 7. Mjúku eða bræddu smjöri dreift yfir (40 g á annan helminginn)
 8. Helmingi af blöndunni stráð yfir
 9. Rúlla búin til úr deiginu og henni skipt niður í 10 -12  jafna þríhyrningslaga bita (sjá mynd)
 10. Smjörpappír settur í ofnskúffu og bitunum raðað á smjörpappírinn. Röri þrýst á miðjan þríhyrninginn þannig að dæld myndast (sjá mynd)
 11. Klútur settur yfir og látið hefast aftur í 30 mínútur
 12. Sama gert við hinn helmginginn af deiginu (liður 7 – 11)
 13. Ofninn hitaður 225°C (yfir- og undirhiti)
 14. Bakstur: Egg og ögn af salti hrært saman. Snúðarnir penslaðir með eggjahrærunni og skreytt að lokum með perlusykri (má sleppa)
 15. Bakað í u.þ.b. 7  – 10 mínútur

Geymsla: Snúðarnir geymast mjög vel í frysti.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*