Einföld og saðsöm omiletta – skotheldur morgunmatur

Omiletta/eggjakaka – saðsöm og fjótleg

 • Servings: 1
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Fyrir nokkru var ég stödd á hóteli þar sem góðar omilettur voru á morgunverðarborðinu. Ég fylgdist með kokkinum og hef lengi verið á leiðinni að reyna að búa til eitthvað svipað. Ég hef verið að prófa ketofæði og er þessi omiletta alveg gráupplögð þar. Ekki spillir fyrir hversu saðsöm og auðveld hún er.

Eitt ráð: Mér finnst gott að flýta fyrir með því að saxa niður allt grænmetið, sem ég vil hafa í omilettunni, og setja það í lokaðar krukkur inn í ísskáp. Þá þarf ekki að eyða tíma í niðurskurð á hverjum morgni. Grænmetið geymist ágætlega í krukkunum.

Hráefni

Ýmsir möguleikar í boði

 • 2 egg
 • Olía og/eða smjör – til steikingar
 • Laukur – saxaður smátt
 • Paprika – söxuð smátt
 • Vorlaukur – skorinn í þunnar sneiðar
 • Sveppir – saxaðir smátt
 • Skinka eða salami
 • Rifinn ostur, feta-, smur-, eða geitaostur
 • Annað sem er í uppáhaldi og á vel við
 • Salt og pipar

 

Verklýsing

 1. Pannan hituð (á meðalhita) og olíu hellt á hana. Eggin sett í skál og pískuð með gaffli. Niðurskorið grænmeti, skinka og/eða ostur bætt saman við. Osturinn má fara í blönduna eða á eftir þegar hún er komin á pönnuna
 2. Öllu hellt á pönnuna og látið malla á meðalhita. Ef pannan er of heit eru meiri líkur á að omilettan/eggjakakan brenni áður en hún hefur náð að bakast. Þegar kominn er fallegur litur er notaður spaði til að hvolfa öðrum helmingi af omilettunni yfir á hinn. Gott að lækka hitann smá og leyfa henni að malla aðeins. Láta hana jafna sig á diskinum áður hún er borðuð
 3. Salti og pipar stráð yfir

Omiletta með papriku, skinku, sveppum, vorlauk og rifnum osti

 

Omiletta með vorlauk, papriku, rauðum lauk, skinku og geitaosti

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*