Ljúffeng blómkálssúpa með kryddblöndu

Ljúffeng blómkálssúpa með kryddblöndu

 • Servings: 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Uppskriftin er heimatilbúin.  Súpan er mild og góð en ég hef búið til tvær ólíkar kryddblöndur með. Það er smekksatriðið hvor kryddblandan á betur við en sú með beikoninu er vinsælli.  Hafa má rúmlega af kryddblöndunni en það er afar mismunandi hvað fólk vill mikið af henni.

Forvinnsla

Súpuna má laga daginn áður en kryddblönduna er best að gera samdægurs.

Hráefni

Súpa

 • 1 laukur – saxaður
 • Smjör og olía til steikingar
 • 1 blómkálshöfuð (u.þ.b. 850 g) – hreinsað og tekið í sundur. U.þ.b. 100 g tekin frá fyrir kryddblönduna
 • 1 blaðlaukur (u.þ.b. 100 g í súpuna og 40 g í kryddblönduna) – skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 lárviðarlauf
 • ½ tsk capers – saxað smátt
 • 750 ml kjúklingakraftur (750 ml vatn og u.þ.b. 3 – 3½ tsk kjúklingakraftur)
 • 2 – 2½ dl mjólk
 • 1 dl rjómi eða sýrður rjómi (má sleppa)
 • Salt og pipar
 • Ögn af sítrónusafa
 • Ögn af rifnu múskati

 

Kryddblanda 1

 • 150 – 200 g beikon
 • Rúmlega 100 g litlir bitar af blómkáli
 • Rúmlega 40 g þunnar sneiðar af blaðlauk
 • U.þ.b. ½ búnt steinselja – söxuð
 • Olía og smjör til steikingar

 

Kryddblanda 2

 • 1 stk lítið rautt epli – skorið í litla bita (hýðið látið vera á)
 • ½ tsk karrý
 • Steinselja – söxuð
 • Börkur af ¼ sítrónu – rifinn
 • Pipar og saltflögur
 • 1 brauðsneið – skorin í litla bita
 • Smjör og olía til steikingar

Verklýsing

 1. Blómkálið tekið í sundur. Litlir bitar lagðir til hliðar fyrir kryddblönduna. Blaðlaukurinn sneiddur niður (sneiðarnar fyrir kryddblönduna eru skornar í mjög þunnar sneiðar – sker þá efst og neðst af lauknum). Miðhlutann má skera niður í grófari sneiðar og nota í súpuna
 2. Olía hituð í potti og aðeins af smjöri sett út í (það gefur gott bragð).  Laukur og blaðlaukur steiktur á vægum hita (u.þ.b. 10 mínútur) eða þar til hann verður glær (á ekki að taka lit)
 3. Blómkáli bætt saman við og steikt smá stund í pottinum (hiti aðeins hækkaður)
 4. Kjúklingakrafti bætt út í (heitt vatn og krafti blandað saman – magn er mismunandi – sjá leiðbeiningar á umbúðum)
 5. Mjólk, capers og  lárviðarlauf sett út í og látið malla í 10 – 15 mínútur
 6. Lárviðarlaufið tekið upp úr og allt maukað saman með töfrasprota eða í blandara
 7. Smakkað til með sítrónusafa, salti og pipar
 8. Sýrðum rjóma eða rjóma bætt saman við og suðan látin koma upp.  Hrært reglulega í á meðan

 

Kryddblanda 1

 1. Beikon skorið í bita (stærðin smekksatriði) og steikt á pönnu eða í ofni (180°C í u.þ.b. 10 mínútur). Sett á eldhúspappír og fitan látin renna af
 2. Blómkálið steikt (meðalhiti) í olíu og örlitlu af smjöri í 7 – 8 mínútur
 3. Blaðlaukssneiðunum bætt við og steikt
 4. Beikonbitum og steinselju blandað saman við
 5. Kryddblandan sett í skál og borin fram með súpunni þar sem hver og einn skammtar á sinn disk

 

Kryddblanda 2

 1. Brauðbitar ristaðir á pönnu og lagðir til hliðar
 2. Smjör brætt á pönnu og karrý látið blandast smjörinu (á meðalhita). Eplabitar steiktir í karrýsmjörinu
 3. Sítrónuberki og steinselju hrært saman við
 4. Brauðbitum bætt við í lokin
 5. Kryddlblöndunni hellt í skál og hún borin fram með súpunni þar sem hver og einn skammtar á sinn disk

 

Súpan í vinnslu

 

Kryddblanda 1 í vinnslu


 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*