Bláberjasörur gera daginn betri

Bláberjasörur

 • Servings: Magn: u.þ.b. 45 - 75 kökur/háð stærð
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fann ég í sænsku blaði fyrir nokkrum árum. Sörurnar eru í miklu uppáhaldi og hef ég bakað þær um hver jól undanfarin ár. Upplagt að nota íslensk bláber ef þau leynast í frystinum.

Vinnsla

Mér finnst gott að skipta bakstursferlinu í þrennt og taka klukkutíma í hvert skipti.

 1. Baka botnana – þeir þola vel að geymast í nokkra daga
 2. Útbúa smjörkremið og setja á kökurnar
 3. Hjúpa kremið með súkkulaðinu – oft er þetta tímafrekasti þátturinn og alls ekki gott að vera undir tímapressu með hann.

Ath.  Það er smekksatriði hversu stórar kökurnar eiga að vera – ef kökurnar eru mikið fleiri en 50 stk.  dugar kremið kannski ekki alveg en þá má bara búa til meira

Hráefni

Botnar

 • 400 g kransakökumassi – rifinn gróft

Það er ekki sama hvaða marsipan er notað. Ég hef verið með það sem fæst í Fjarðarkaupum og þeir pakka sjálfir. Athuga að þetta er kransakökumassi (ekki hjúpmarsipan). Hef notað danska Odense marsipanið, með mismunandi árangri, en þar er sykur- og möndlumagnið mismunandi eftir tegundum. Kökurnar hafa lekið og orðið allt öðruvísi nema þegar ég hef notað marsipanið frá þeim með 63% möndlum – þá hefur það gengið glimrandi vel.

 • 2 eggjahvítur
 • Tæplega 2½ dl sykur

 

Bláberjasmjörkrem

 • 200 g ósaltað smjör – við stofuhita
 • 1½ dl flórsykur
 • 3 tsk vanillusykur
 • 3 eggjarauður – við stofuhita
 • 2 dl frosin bláber (láta þau þiðna yfir nótt) – mikilvægt að þau séu við stofuhita

 

Hjúpur

 • U.þ.b. 350 g dökkt suðusúkkulaði

Verklýsing

Botnar

 1. Ofninn hitaður í 180°C (blástursstilling)
 2. Eggjahvítur og sykur þeytt létt saman. Kransakökumassa hrært saman við – ekki of lengi. Blandan sett í kæli í rúmlega 20 mínútur
 3. Kúlur mótaðar með skeið og settar á ofnplötu með smjörpappír (ágætt að strjúka smjörpappírinn með ísköldu smjöri úr ísskápnum). Einnig má nota sprautu til að útbúa kökurnar. Stærð hverrar köku er smekksatriði – mínar hafa verið að minnka með árunum. Gott að þrýsta aðeins með skeið (sem hefur verið dýft í kalt vatn) á kökurnar þannig að þær fletjist svolítið út – þá eru þær stöðugri þegar þær eru hjúpaðar
 4. Bakað í u.þ.b. 8 – 11 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með kökunum – ofnar geta verið misheitir. Kökurnar látnar kólna – það má alveg geyma þær í nokkra daga

 

Bláberjasmjörkrem

 1. Þegar smjörkremið er lagað er mjög mikilvægt að öll hráefnin séu við stofuhita. Það sama á við um bláberin. Gott að taka þau úr frystinum daginn áður og láta þau þiðna yfir nótt. Öll hráefnin þurfa að standa úti í einhvern tíma. Ef hitastigið er mismunandi er hætta á að smjörkremið ysti – t.d. ef berin eru of köld. Það getur verið ágætt að sprengja berin – hræra aðeins í þeim svo að hitinn sé sem jafnastur
 2. Smjör og flórsykur þeytt vel saman. Eggjarauðum bætt við – einni í einu – þeytt á milli. Vanillusykri þeytt saman við. Bláberin eru sett í síðast – best að setja lítið í einu og hræra saman með sleikju á milli
 3. Ef illa gengur að blanda öllu saman (eins og það ysti) er hægt að setja kremið í 2 – 4 sek í örbylgjuofn og þeyta aftur. Ég lendi stundum í þessu en þá hita ég blönduna örstutta stund og hræri aftur saman.  Ef það gengur ekki þeyti ég smjörið í hrærivélinni – yfirleitt gengur það
 4. Smjörkremið sett á aðra hlið botnanna – (sléttu hliðina). Ágætt að móta lítinn bláberjasmjörtopp – magn kremsins er smekksatriði.  Sett í kæli (sjá mynd fyrir neðan)

 

Hjúpur

 1. Helmingur af suðusúkkulaðinu látinn bráðna yfir vatnsbaði á lágum hita (má ekki bullsjóða). Þegar því er lokið er skálin tekin af hitanum og afgangi af súkkulaðinu bætt við (i bitum) – blandað saman þar til súkkulaðið er allt bráðnað. Þá ætti hitastigið á súkkulaðibráðinni að vera rétt (súkkulaði temprað)
 2. Kökurnar teknar úr kæli – haldið með fingrunum um kökuna og henni dýpt ofan í súkkulaðið. Kakan lögð á ofnskúffu (súkkulaðihliðin snýr upp) með bökunarpappír og súkkulaðið látið harðna

Geymsla

Sett í box og inn í kæli – geymist vel


Ágætt að nota skeið til að þrýsta aðeins á kökurnar – þá verða þær stöðugri

 

Bláberjasmjörkremið 

Kremið á myndinni til vinstri er svolítið ystað en með því að velgja það aðeins og þeyta betur má laga þaðStundum missir kremið aðeins léttleikann við það og nýtist ekki eins vel.  

 

Ystað krem á efstu mynd – liturinn á kreminu er mildari en á myndinni fyrir ofan.  Getur verið aðeins mismunandi eftir bláberjum
IMG_8822

Súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og einni köku í einu dýpt ofan í – gott að láta drjúpa vel af áður en kakan er lögð á disk/ofnskúffuIMG_8850

Gott að láta kökurnar inn í kæli til að súkkulaðið sé fljótara að harðna

IMG_8847

Hef notað þennan kransakökumassa

img_1600

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*