Graskerssúpa með beikoni

Graskerssúpa með beikoni

 • Servings: fyrir 8
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Fékk þessa uppskrift hjá Ingibjörgu og þótti mér súpan mjög góð. Prófaði svo að bæta beikoni við og mæli með því.  Gerði samanburð og bjó til súpu bæði með og án beikons. Þær eru báðar mjög góðar en þessi með beikoninu átti vinninginn.

Forvinna

Súpuna er hægt að laga fyrr um daginn eða daginn áður. Einnig er hægt að flýta fyrir með því að skera niður og steikja grænmetið eitthvað áður.

Hráefni

 • Smjör til steikingar
 • 2 laukar – saxaðir
 • 3 hvítlauksrif – skorin gróft
 • 200 g beikon (sneiðar eða kurl)
 • 3 gulrætur – niðurskornar
 • 2 sellerístönglar – niðurskornir
 • Engiferbiti – rifinn eða skorinn í litla bita
 • ½ – 1 chili – skorið í bita og fræhreinsað að mestu (styrkleiki súpunnar er m.a. háður fjölda fræja)
 • 1 msk rautt karrýmauk (curry paste – Thai red)
 • 1 stk grasker – afhýtt, fræhreinsað og skorið í bita
 • 1 lítri vatn
 • 2 tsk grænmetis- og/eða kjúklingakraftur
 • 1 dós kókosmjólk eða rjómi/matreiðslurjómi (4 dl)  – eða eftir smekk
 • Salt og pipar
 • Limesafi – nokkrir dropar

Verklýsing

 1. Smjör brætt í potti – laukur og hvítlaukur settir út í. Látið malla á lágum hita þar til laukurinn er orðinn glær
 2. Beikoni bætt við og hitinn aðeins hækkaður – hrært og beikonið látið brúnast aðeins
 3. Gulrætur, sellerístönglbitar, chili og engifer sett út í – steikt á vægum hita
 4. Afganginum af hráefninu bætt út í nema kókosmjólk/rjóma, salt/pipar og limesafa – soðið í ½ -1 klukkutíma
 5. Sett í matvinnsluvél og maukað – einnig er hægt að nota töfrasprota
 6. Aftur sett í pottinn og rjóma eða kókosmjólk hellt út í – hitað
 7. Kryddað með salti og pipar. Bragðbætt með lime

Meðlæti

Nýbakað brauð – súrdeigsbrauð (Gott súrdeigsbrauð) á mjög vel við.  Einnig má setja Chiafræ í skál og strá þeim yfir súpuna.

grasksupa

Hægt að steikja beikon sér og nota sem skraut ofan á

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*