Engiferskot
Uppruni
Þegar ég fer til Svíþjóðar kaupi ég mér oft flösku af engiferskoti sem ég fæ mér staup af í morgunsárið. Þar sem ég hef ekki ennþá fundið svipað í búðunum hér heima er bara eitt í stöðunni…. búa til sitt eigið. Eitt staup af þessu er góð byrjun á deginum.
ATH. það er svolítið persónulegt hversu sæt og sterk skotin eiga að vera. Þeir sem vilja meiri sætu setja meira af eplasafanum og þeir sem vilja engiferdrykkinn ekki of sterkan setja meira vatn.
Hráefni
- 200 g lífrænt engifer – hreinsað lauslega og skorið í bita
- 2 sítrónur – safinn
- 5 – 7 dl eplasafi (100% pressaður safi) t.d. Manzana frá Don Simon
- 1 – 1½ lítri vatn
Verklýsing
- Þegar ég er með lífrænt engifer sleppi ég að flysja það (sagan segir að hýðið sé afskaplega hollt). Gott er að taka óhreinindi af og skera í minni bita
- Sett í blandara ásamt hluta af vatninu og maukað. Maukinu hellt í sigti og vökvinn síaður frá í skál sem gott er að hella úr
- Maukið sett aftur í blandarann og leikurinn endurtekinn
- Eftir 2 skipti er maukið sett aftur í blandarann ásamt hluta af eplasafa og sítrónusafa – maukað og hellt í sigtið (gott að þrýsta á með skeið til að ná sem mestu). Endurtekið
- Í lokin er gott að nota það sem eftir er af vatninu og ná því mesta úr maukinu. Mauka og sigta
- Vökvinn settur í hreinar flöskur í gegnum trekt (ágætt að sjóða þær eða láta heitt vatn renna í þær)
- Vökvinn geymist vel í kæli í lokuðum flöskum







