Kartöflumús með parmesanosti og brenndu smjöri
Uppruni
Hér kemur smá twist af kartöflumúsinni hennar mömmu. Nú er búið að bæta parmesanosti við og brenndu smjöri hellt yfir. Skemmtileg tilbreyting að bjóða upp á þessa útgáfu sem á vel með nánast öllu.
Hráefni
- 1 kg kartöflur
- 1 – 2 msk smjör
- 2½ dl heit mjólk (upp að suðu)
- Salt og hvítur pipar
- Aðeins af muldu múskati
- 1 – 2 dl parmesanostur – rifinn fínt
Brennt smjör
- 30 g smjör
- 1 – 2 skarlottulaukar – skornir fínt
- ½ – 1 msk capers – saxað smátt
Verklýsing
- Kartöflurnar soðnar (settar í kalt vatn og saltað aðeins – suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og soðið í u.þ.b. 20 mínútur). Karöflurnar má flysja áður en þær eru soðnar eða strax eftir suðu
- Mjólk hituð í potti (til að spara uppþvott er gott að nota pott sem hægt er að nota fyrir kartöflumúsina í lokin)
- Kartöflurnar eru pressaðar heitar. Smjöri bætt í og hrært saman við. Heitri mjólkinni ásamt rifna parmesanostinum bætt við – hrært saman (best að nota hrærivél) – ath ekki hræra of lengi
- Kryddað eftir smekk
- Mér finnst ágætt að setja kartöflumúsina í lokin í pottinn, sem mjólkin var hituð í, og velgja hana á lágum hita
Brennt smjör
- Smjör brætt í potti ásamt lauk og capers. Það er ágætt að láta smjörið malla á meðahlita í rólegheitum. Þegar farið er að krauma í því og froða myndast ætti að fara að koma brúnn litur í botninn. Þegar laukurinn er orðinn vel brúnn er gott að slökkva á hitanum
- Rétt áður en kartöflumúsin er borin fram er ágætt að skerpa á hvoru tveggja. Músin sett á fat og brennda smjörinu hellt yfir











