Caesar salat - einfalt og gott
Uppruni
Hér kemur mín útgáfa af Caesar salati. Salatið er án ansjósa og kjúllann steiki ég í pottunum góðu (Hönnupottar) en þar verða bringurnar sérstaklega safaríkar. Þetta er samt ekki heilagt og má skera bringurnar niður og steikja þær á pönnu eða hvernig sem hentar best. Það að búa til sína eigin brauðteninga gerir mjög mikið fyrir réttinn. Segja má að það séu ágætis meðmæli með réttinum að hann er á óskalistanum hjá stráknum mínum …. þó hann fáist almennt ekki til að borða salat.
Forvinnsla
Brauðteningana má búa til fyrr um daginn og sama með sósuna, beikonið og kjúklinginn. Fínt að velgja beikonið og kjúllann aðeins áður en það er sett í salatið (ekki nauðsynlegt)
Ath. Ef til er brauð í frystinum er upplagt að nota það í brauðteningana. Í staðinn fyrir kjúklingabringur má líka elda heilan kjúkling og skera hann niður.
Hráefni
Brauðteningar
- ½ snittubrauð (stundum kaupi ég ólífusnittubrauð)
- 2 msk olía
- 2 hvítlauksrif – pressuð
- 2 msk parmesanostur – rifinn fínt
Caesarsalat
- 150 – 200 g beikon
- Haus af romaine salati eða 2 litlir hausar (hef t.d. fengið lífræna, litla hausa í Krónunni)
- 4 kjúklingabringur
- Frjálst magn af parmesanosti – flysjaður eða rifinn gróft
Dressing
- 2 eggjarauður
- 2 hvítlauksrif – pressuð
- 1 msk dijonsinnep
- 1 msk worcestersósa
- 1 – 1½ msk sítrónusafi
- 1 – 1½ msk rauðvínsedik
- 1 dl olía
- ½ msk gróft salt
- Piparkorn
Verklýsing
Brauðteningar
- Ofninn hitaður í 225°C og stillt á grill
- Snittubrauð skorið í teninga og sett í ofnskúffu (ágætt að hafa margnota eða venjulegan bökunarpappír undir)
- Olía sett í skál ásamt pressaða hvítlauknum og hellt yfir brauðteningana (má líka setja teningana í skál og velta þeim upp úr olíunni). Parmesanosti dreift yfir
- Sett inn í ofninn í 5 mínútur eða þar til kominn er litur á þá – ágætt að kíkja eftir 3 mínútur þar sem ofnar geta verið misheitir – hrista plötuna aðeins til að fá jafnari lit á teningana
Dressing
- Öllu pískað saman í skál
Kjúklingur og samsetning
- Kjúklingabringur eldaðar í Hönnupotti (kjúklingabringur eldaðar í potti) eða skornar í bita og steiktar á pönnu þar til bitarnir eru steiktir í gegn
- Beikon eldað í ofni á 180°C í 10 – 14 mínútur – ágætt að snúa því við einu sinni. Einnig má elda á pönnu. Mér finnst ágætt að leggja beikonið á eldhúspappír og láta eitthvað af fitunni renna af
- Salat skolað. Bæði salatblöð og beikon eru skorin í smærri bita
- Öllu blandað saman í stóra skál, hluta af dressingunni hellt yfir og blandað saman. Parmasanostur flysjaður (ágætt að nota flysjara eða rífa gróft) og dreift yfir. Það sem eftir er af dressingunni er borið fram með – það getur verið smekksatriði hvað mikið er af henni
Geymsla: Geymist ágætlega í lokuðu íláti í kæli


















Pingback: Safaríkar kjúklingabringur eldaðar í potti – hanna.is