Græn og gómsæt gazpacho súpa

Gazpacho með hráskinku og burrata

  • Servings: 4 - 6
  • Difficulty: auðvelt
  • Print

Uppruni

Þessa frábæru súpu fékk ég í matarboði um daginn og mér þótti hún algjört æði.  Kaldar súpur hafa almennt ekki heillað mig en þessi er öðruvísi.  Ekki spillir fyrir að súpan er sneisafull af hollustu.

Forvinnsla

Súpuna má gjarnan búa til daginn áður og geyma í kæli – gott að taka hana út töluvert áður þannig að hún nái stofuhita.

Hráefni

  • 1 meðalstór tómatur – skorinn í bita
  • 1 gúrka – fræhreinsuð og skorin í bita
  • 3 vorlaukar – skornir í sneiðar
  • 1 ferskur jalapenó (eða sambærilegt) – fræhreinsaður og skorinn í bita (fyrir þá sem eru fyrir sterkt má alveg láta nokkur fræ fylgja með)
  • 1 grænn chilipipar – fræhreinsaður og skorinn í bita
  • 2 stönglar af selleríi – skornir í bita
  • 2 hvítlauksrif – skorin í tvennt
  • Lúka af ferskum koríander
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 3 msk góð extra virgin olía
  • 500 ml grænmetiskraftur (2 tsk kraftur og 500 ml vatn)
  • 40 – 50 g klettasalat (ruccola) – geyma nokkur blöð fyrir skraut
  • 2 tsk saltflögur
  • 6 sneiðar af hráskinku (prosciutto)
  • 2 stk burrata ostur (fæst oft mjög góður í Costco)

Verklýsing

  1. Allt hráefni nema hráskinkan og burrata osturinn sett í matvinnsluvél og maukað vel saman. Blöndunni hellt í gegnum sigti og látið jafna sig í 2 – 3 klukkustundir eða yfir nótt. Súpan á að vera frekar þunn
  2. Ofninn hitaður í 180°C
  3. Hráskinkan sett á bökunarpappír í ofnskúffu og bökuð í 8 – 10 mínútur eða þar til hún verður stökk
  4. Þegar búið er að hella súpu í 4 – 6 súpudiska er ostunum skipt jafnt niður og settir á miðjan diskinn. Bitum af stökkri hráskinkunni dreift yfir hér og þar
  5. Skraut: Fallegt að hella nokkrum litlum dropum af góðri olíu yfir súpuna.  Mylja svo aðeins af pipar yfir…. jafnvel strá 2 – 3 saltflögum yfir.  Í lokin er nokkrum blöðum af klettasalati eða fersku kóríander dreift yfir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*