Þristaís er ísinn minn
Uppruni
Eftir að ég eignaðist ísvél finnst mér alveg sérstaklega gaman að búa til hinar ýmsu tegundir af ís og er þessi þristaís klárlega vinsælastur á heimilinu. Einfaldur og góður og frábært að geta gripið í hann úr frystinum til að bjóða upp á í eftirrétt. Mér til gamans set ég hann í ískaldan Hönnupott og inn í frysti. Eftirrétturinn er þá bara klár beint úr frystinum á borðið.
Hráefni
- 6 dl rjómi
- 3 dl mjólk
- 3 – 4 dl púðursykur
- 3 egg
- 300 g þristar (6 stórir eða 18 litiir) – skornir í bita
- 1 dl sykur
- Skraut: 1 – 2 pokar þristakúlur – saxaðar smátt. Einnig gaman að skreyta með öðru lakkrístengdu eða míni perlum
Verklýsing
- Rjómi, mjólk, púðursykur og þristabitar sett í pott og hitað þar til þristar hafa bráðnað saman við blönduna. Lakkrísbitar þurfa ekki að bráðna
- Tekið af hellunni og látið kólna
- Eggjahvíturnar aðskildar frá rauðunum og lagðar til hliðar. Eggjarauðurnar þeyttar saman við sykurinn og þristablöndunni blandað varlega saman við. Gott að hafa í skál með loki
- Eggjahvítur stífþeyttar og blandað mjög varlega saman við þristablönduna með sleikju. Lokið sett á skálina og geymt í kæli yfir nótt
- Sett í ísvél daginn eftir. Gera þarf ísinn í tvennu lagi þar sem öll blandan kemst ekki ofan í ísvélina í einu – sett í box eða Hönnupott (gott að kæla hann fyrst aðeins í frysti)
- Skrautinu dreift yfir í lokin
Ef þú átt ekki ísvél verður áferðin öðruvísi en þá má nota þessa aðferð: Rjóminn er þeyttur. Þristar og mjólk brætt saman – kælt. Púðursykur og sykur þeytt saman við eggjarauðurnar og þristablöndunni blandað saman við ásamt þeytta rjómanum. Eggjahvíturnar þeyttar og þeim blandað varlega saman við í lokin – sett í form og inn í frysti. Betra að setja plastfilmu yfir ef geyma á ísinn í frystinum.
Hráefni
Lakkrísinn þarf ekki að bráðna
Blandan látin kólna…
Tvöföld uppskrift sett í stórt box
Blandan á leið í ísvélina…
Ísinn kominn annarsvegar í box og í pott