Blátt súrdeigsbrauð gerir daginn betri

Bláberjasúrdeigsbrauð með svörtum birkifræjum

  • Servings: /Magn: 1 brauð
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Það er fátt skemmtilegra en að finna nýjar og spennandi útgáfur af súrdeigsbrauði.  Ekki spillir fyrir þegar brauðið fær nýjan lit og á það vel við hér.  Bláber hafa mismikinn lit í sér – þessi innfluttu fersku, stóru ber gefa ekki þennan lit en ég nota lausfryst íslensk bláber sem ég á í frystinum. Ef þau eru ekki til þá fást lausfryst bláber, sem hafa þennan fallega lit, í flestum búðum.  Þetta súrdeigsbrauð er auðvelt og skemmtilega öðruvísi.

Eins og alltaf baka ég brauðin í leirpottunum mínum en það má líka nota pott sem þolir að vera í heitum ofni.

Dæmi um tímasetningu: Deigið er búið til að kvöldi, sett á svalan stað og bakað að morgni.  Ísskápur er aðeins of kaldur en ef það er eini svali staðurinn þá er ráð að geyma deigið við stofuhita þar til kominn er háttatími og setja það þá í kælinn.  Taka það út þegar farið er á fætur og deigið látið jafna sig við stofuhita í svolítinn tíma.

Hráefni

  • 100 g súrdeigsgrunnur
  • 2 dl  vatn (frekar kaldara en heitara og alls ekki heitara en líkamshitinn)
  • 3 dl bláber (ef fryst bláber eru notuð er gott að láta þau aðeins þiðna)
  • 100 g heilhveiti
  • 500 g hveiti
  • 10 g gróft salt
  • 25 g vatn
  • ½ dl svört birkifræ (má sleppa)
  • Hveiti til að sigta yfir

Verklýsing

  1. Bláber og vatn maukað saman með töfrasprota eða í blandara
  2. Bláberjablandan sett í skál og súrdeigsgrunni, heilhveiti og hveiti blandað saman við með sleikju
  3. Deigið látið standa aðeins, salti og 25 g af vatni blandað saman við og hnoðað með blautri hendinni – sjá myndband
  4. Deigið sett í box með loki og látið standa í 8 – 10 klukkustundir á svölum stað
  5. Boxinu hvolft á hveitistráð borð – deigið látið falla á borðið.  Þrískipting gerð og brauðkúla mynduð. Vatni penslað á brauðið og svörtum birkifræjum dreift yfir kúluna og á botninn (má sleppa)
  6. Ofninn hitaður í 250°C (yfir- og undirhiti) – leirpotturinn látinn hitna með ofninum
  7. Brauðkúlan sett í pottinn og lokið á – bakað í 30 mínútur
  8. Lokið tekið af og brauðið bakað í 10 – 15 mínútur til viðbótar
  9. Brauðið tekið úr pottinum og látið kólna aðeins áður en það er skorið

 

Hráefni

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*