Safaríkur kjúklingur eldaður í leirpotti
Uppruni
Tilraunaeldamennskan með leirpottana mína heldur áfram… ég fæ seint leið á því. Mér finnst það með ólíkindum hvað margt er hægt að elda í þeim…stundum finnst mér eins og þeir séu göldróttir … en sennilega er þarna bara móðurhjartað sem talar. Nú erum við að tala um bláberjasósu og í alvöru þá er hún ekki bara falleg á litinn heldur er hún líka fantagóð og ilmar svo vel. Það eru ekki allir sammála á heimilinu um það hvort liturinn sé fallegur – mér finnst hann æði en það eru allir sammála um að sósan bragðast og lyktar alveg sérstaklega vel. Ég nota íslensk bláber sem ég á í frystinum en ef þau eru ekki til þá er hægt að fá fryst bláber sem hafa líka þennan fallega lit.
Forvinna
Sósuna má búa til daginn áður (eða tveimur) og eiga í kæli.
Hreinlæti
Eins og alltaf er hreinlæti mikilvægt í matargerð – það á sérstaklega við um kjúkling. Ég nota yfirleitt ekki hanska heldur passa upp á að þvo hendur vel fyrir og eftir að ég hef handleikið kjúkling. Einnig er mikilvægt að þvo allt vel, sem notað er við matargerðina, eins og t.d. bretti, borð og kryddkrukkur.
Hráefni
Kjúklingur
- 1 kjúklingur (u.þ.b. 1,8 – 2 kg)
- Kjúklingaveisla frá Kryddhúsinu
- 4 – 10 hvítlauksrif – með hýðinu
- Sítrónusneiðar – má sleppa
- Fersk eða frosin bláber – smá sleppa
- Saltflögur
Bláberjasósa með hvítlauk
- 2 dl fersk eða frosin bláber
- 2 dl olía
- 2 dl sýrður rjómi
- 1 stk sultuð engiferkúla
- 2 – 4 hvítlauksrif – pressuð
- Saltflögur og pipar – sett í lokin
Verklýsing
Bláberjasósa með hvítlauk
- Allt hráefni sett í matvinnsluvél eða öflugan blandara – gott að láta sósuna standa aðeins
Kjúklingur
- Ofninn stilltur á 180°C (blásturstilling)
- Kjúklingur þurrkaður, kryddaður og settur í leirpottinn (sjá myndband). Til þess að flýta fyrir steikingu og einnig auðvelda að ná sér í bita af kjúklingnum, þegar hann er borinn fram í pottinum, þá klippi ég hann aðeins í sundur með öflugum skærum en það er alls ekki nauðsynlegt
- Hvítlauksrifin – sett hér og þar í pottinn ásamt sítrónusneiðum og bláberjum – sjá myndband
- Kjúklingurinn er eldaður í 1½ klukkustund (háð þyngd). Lokið er tekið af pottinum síðustu mínúturnar – bara til að fá fallegri lit á kjúklinginn en það þarf alls ekki alltaf. Þeir sem eru óöruggir með eldunina geta stungið kjöthitamæli í bringuna (geri það oft þegar kjúllinn er búinn að vera í klukkustund í ofninum) – kjúklingurinn á að vera tilbúinn þegar mælirinn sýnir 78°C
- Hluta af sósunni er hellt yfir kjúklinginn en hún er einnig borin fram í sér skál. Ferskri niðurskorinni steinselju stráð yfir í lokin ásamt saltflögum. Ath. stundum er soðið mikið sem kemur af kjúklingnum. Þá er gott að hella því í sér skál og bera fram með
Meðlæti: Gott með hrísgrjónum. Mér finnst nóg að bera ferskt og brakandi salat með og nýbakað brauð.
Sósa í vinnslu
Kjúklingur í vinnslu