Uppstúf af bestu gerð

Uppstúf - einfalt og gott

 • Servings: 5 - 6
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fékk ég hjá dóttur minni en henni hefur verið tíðrætt um uppstúfið sem hún fær hjá Guðrúnu tengdamóður sinni.  Það reyndist smá vesen að næla sér í uppskrift þar sem engin hlutföll eru til heldur er þetta bara tilfinningin. Ég náði samt að herja út hráefnalistann og svo var bara eitt í stöðunni … að prófa sig áfram.  Tengdasonur minn segir að þetta sé allt að koma.   Smá ves þar sem ég er alin upp við sykurlaust uppstúf og kýs því að hafa bara ögn af sykri.  Þetta snýst jú allt um hverju maður venst en það er alveg klárt að ég get vanist þessu uppstúfi.

Forvinna

Það er er alveg upplagt að búa uppstúfið til fyrr um daginn.  Betra að hafa lok á pottinum svo að ekki komi skán.

Við uppstúfsgerð er gott að hafa eftirfarandi í huga:

 1. Mikilvægt að hræra stöðugt í – mjólk brennur auðveldlega við (betra að hafa ekki alveg hæstu stillinguna á)
 2. Mjög mikilvægt er að láta uppstúfið bubbla/sjóða – bæði til að það þykkni og eins til að taka hveitibragðið.  Hið góða uppstúfsbragð kemur þegar suðan hefur komið upp
 3. Ef brennur við botninn. Þá er mikilvægt að hella uppstúfinu beint yfir í annan pott.  Alls ekki skafa af botninum – það skemmir bragðið
 4. Finnst þér sósan of þunn?  Þá er hægt að setja vatn í hristiglas (eða í krukku með loki) og svo hveiti.  Hrista vel og hella í mjórri bunu í uppstúfið. Hræra vel á meðan og láta suðuna koma upp (til að taka hveitibragðið)

Hráefni

Það eru miklar tilfinningar í uppstúfi varðandi sætu, salt og þykkleika.  Hlutföllin eru því svolítið sveigjanleg.

 • 1 kg kartöflur
 • 100 – 150 g smjör
 • 1½ – 2 dl hveiti
 • 1 – 1½ l mjólk
 • ½ – 1 tsk salt
 • 1 – 2 tsk sykur
 • 1 – 1½ tsk hunang
 • ½ tsk múskat
 • ½ tsk hvítur pipar

Verklýsing

 1. Smjör brætt í potti
 2. Hveiti stráð yfir og hrært – láta það hitna vel og hræra stöðugt í
 3. Mjólk bætt við – ekki setja allt í einu… heldur jafnt og þétt og hræra stöðugt í svo að ekki brenni við.  Ferlið getur tekið u.þ.b. 15 – 25 mínútur – allt háð hita og magni
 4. Þegar uppstúfið er farið að þykkna er afgangi af hráefnum bætt við og hrært.  Hér erum við að tala um salt, sykur, hunang, múskat og pipar
 5. Suðan er látin koma upp – mér finnst betra að hafa sósuna í þykkri kantinum
 6. Kartöflur settar út í – það er betra að hafa þær heitar (þá þarf síður að standa og hræra í til að ná upp hita og minni líkur á að kartöflurnar molni)

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*