Góða brauðið – Gotlandslimpa

Góða brauðið - Gotlandslimpa

 • Servings: 2 brauð
 • Difficulty: miðlungs
 • Print

Uppruni

Uppskriftin er sænsk og kemur frá mömmu. Hún hefur bakað þetta brauð hver einustu jól síðustu áratugi og gengur það undir nafninu Góða brauðið. Það geymist vel í nokkra daga en er líka gott að frysta. Það passar vel með síld, lifrarkæfu (heimagerða lifrakæfan hennar mömmu) og svo er það frábært með vænni klípu af smjöri.

Ath. Fordeigið þarf að gera daginn áður þar sem það þarf að standa yfir nótt.

Leirpottur: Upplagt að nota pott eins og t.d. Hönnupott.  Þá er hann hitaður með ofninum og deigkúlan sett í heitan pottinn. Lokið er tekið af eftir 10 mínútur.  Þar sem brauðin eru tvö má baka fyrst annað og setja svo hitt í heitan pottinn eða baka þau bæði í einu, annað í potti og hitt í ofnskúffu með bökunarpappír.

Hráefni

Fordeig

 • 900 ml rúgsiktimjöl (50% rúgmjöl og 50% hveiti – sigtað saman)
 • 750 ml soðið vatn
 • ½ msk salt
 • ½ msk edik

Deig

 • Fínskorinn eða rifinn börkur af ½ appelsínu, (hvíti hlutinn skorinn úr)
 • ½ msk anis
 • ½ msk fennel
 • ½ dl síróp
 • 50 g pressuger ( eða 1 pakki af þurrgeri)
 • 7 – 8 dl hveiti
 • Blanda af sterku kaffi (u.þ.b. ½ dl) og sírópi (u.þ.b. ¼ dl)

Verklýsing

Fordeig

 1. Vatn soðið – salt og edik sett út í. Ath. hægt er að ráða loftleikanum í brauðinu.  Ef vatnið er bara látið ná 70°C (ekki látið sjóða) er loftleikinn meiri.  Mér finnst betra að hafa brauðið þétt í sér þannig að ég læt vatnið alltaf sjóða
 2. Sjóðheitu vatninu hellt yfir rúgsiktimjölið – hnoðað saman í hrærivél
 3. Plastfilma sett yfir skálina og látið standa yfir nótt (við stofuhita)

 

Deig

 1. Ögn af volgu vatni (alls ekki of heitu) sett í skál ásamt þurrgerinu – blandað saman þannig að þurrgerið leysist upp.  Appelsínuberki, anis, fennel, og sírópi blandað saman við. Hveiti hnoðað saman við ásamt rúgsigtiblöndunni – stundum hef ég þurft að hnoða deigið í höndunum í lokin.  Klútur/viskustykki lagt yfir og deigið látið hefast í klukkustund (eða þar til það hefur tvöfaldað stærð sína
 2. Deigið sett á hveitistráða borðplötu  og tvö hringlaga brauð mótuð  – sett á  bökunarpappír og látið hefast með klút yfir í rúmlega klukkustund
 3. Ofn hitaður í 200°C og brauðin bökuð í 50 mínútur.  Ef bakað er í leirpotti er gott að hita pottinn með ofninum og láta brauðdeigið í heitan pottinn.  Látið bakast með lokinu í 10 mínútur en svo er lokið tekið af og bakað í 40 – 42 mínútur til viðbótar. Ef brauðið er bakað í ofnskúffu með bökunarpappír er brauðið bakað í 50 mínútur
 4. Um leið og brauðin koma úr ofninum eru þau pensluð með kaffi- og sírópsblöndunni og vafin innan í klút

Geymsla

Brauðið helst mjúkt í nokkra daga en geymist líka vel í frysti.

Fordeig í vinnslu


Plastfilma sett yfir og deigið látið standa úti yfir nótt

 

Rúgsiktimjölsblandan búin að standa úti yfir nótt

Hráefni

 

Gerið leyst upp í u.þ.b. ½ dl af volgu vatni

 

Appelsínuberki, anis, fennel og sírópi blandað saman við

 

og að lokum hveiti og fordeigi hnoðað saman við

 

Ef hrærivélaskálin er of lítil er gott í lokin að hnoða deigið með höndunum

Rakur klútur settur yfir skálina og látið hefast í klukkustund (á myndinni er verið að baka tvöfalda uppskrift)

 

Eftir klukkustund er deigið sett á borð og skipt í tvennt

 

Tvær kúlur mótaðar

Látið hefast undir klút í klukkustund

 

Brauðin bökuð í potti

Brauðin buin að hefast  – bökuð á ofnplötu. Kaffisírópið útbúið á meðan að brauðin bakast

 

Brauðið pennslað strax og það er komið úr ofninum


 

Eftir að brauðin hafa verið pensluð er gott að vefjan þeim inn í viskustykki

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*