Einfalt og mjúkt brauð bakað í leirpotti

Dúnmjúkt brauð bakað í leirpotti

 • Servings: Magn/: 1- 2 brauð (fer eftir stærð pottsins)
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Fékk þessa uppskrift hjá Eriku fyrir mörgum árum og hef notað grunninn til að gera mismunandi útfærslur af brauðmeti.  Þessi uppskrift er sérstaklega fljótleg og er hún oft á óskalistanum hjá börnunum.  Brauðið er best nýbakað en einnig gott daginn eftir í nestisboxið eða í brauðristina.

Hráefni

Ath. Það er háð pottastærð hvort uppskriftin passar sem 1 brauð eða 2

 • 1 bréf þurrger (ca. 12 g) eða 25 g pressuger
 • ½ lítri mjólk
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt
 • 10 – 13 dl hveiti – hægt að minnka það magn  og setja gróft korn, haframjöl eða heilhveiti í staðinn

Verklýsing

 1. Þurrger/pressuger og salt sett í skál. Ath. hægt að nota minna ger og lengja hefingartímann. T.d. setja helmingi minna af geri og auka hefingartímann um 1 – 1½ klukkustund
 2. Mjólk og hunang hitað (37°C) og hellt í skálina.  Hrært í með sleikju –  nokkrum dl af hveiti bætt við og blandað saman. Deigið hnoðað í lokin – deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna en á alls ekki að vera þurrt
 3. Klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur
 4. Ofninn settur á 225°C (u.þ.b. 15 mínútum áður en deigið er full hefað). Potturinn settur í ofninn um leið og kveikt er á honum
 5. Þegar ofninn hefur náð hitanum er potturinn tekinn út og deigið sett í hann. Ef deigið er of stórt í pottinn má skipta því til helminga og baka í tvennu lagi (einnig má helminga uppskriftina)
 6. Brauðið bakað í 25 mínútur – ágætt að taka lokið af aðeins áður til að fá fallegan lit á brauðið

Geymsla

Brauðið er ágætt daginn eftir og geymist vel í frysti en bara ekki of lengi.

4 Comments

 1. Sæl og blessuð. Hveðan koma pottarnir sem þú notar?

  • Sæl Mónika,
   Ég bý þessa potta til og hef verið að útfæra þá þannig að þeir henti bæði til að baka brauð og svo að elda mat í. Til dæmis hef ég verið að elda fisk og einnig heilan kjúkling í pottunum en kjúklingurinn er mjög safaríkur þegar hann eldast í potti í ofninum með lokinu á 🙂 Ég hef einmitt verið að bæta við uppskriftum á heimasíðuna þar sem pottarnir eru notaðir við eldunina.

   Við erum þrjár saman með vinnustofu á Smiðjuveginum og erum að vinna í gera heimasíðuna okkar http://www.keramikstudio.is þar sem hægt er að sjá það sem við erum að gara. Ef þú hefur áhuga að fá að skoða það sem við erum að gera þá er það velkomið 🙂

   Kveðja, Hanna

 2. Sæl!
  Hvar fékkst þú þessa fallegu leirpotta?
  Skipta þeir ekki töluverðu máli upp á útkomuna?
  Kveðja Ólöf

  • Sæl Ólöf,
   Gaman að heyra að þér finnist leirpottarnir fallegir 🙂 Ég er með vinnustofu ásamt tveimur öðrum á Smiðjuveginum og þar bý ég til þessa leirpotta. Undanfarið ár hef ég verið að betrumbæta þá, stækka þá þannig að hægt sé að nota þá líka til að elda meira í þeim. Eins geri ég líka potta með þremur hnúðum ofan á en þá er hægt að láta lokið standa og nota það sem skál.

   Mín reynsla er sú að með því að baka brauðið í potti með loki á, þá finnst mér brauðið bæði lyfta sér betur þar sem það bakast á miklu hærri hita í heita pottinum og svo er skorpan betri. Eins finnst mér brauðið líka halda fallegri lögun en eins og t.d. sólarhringsbrauðið (sem er frekar þunnt deig) þá er það miklu fallegra í laginu þegar það bakast í potti.
   Þegar ég elda fisk eða heilan kjúkling í pottunum með lokinu á finnst mér kjötið miklu safaríkara. Ég hef mikið verið að prófa mig áfram með rétti eldaða í pottunum og finnst ótrúlega margir spennandi möguleikar 🙂

   Þessa dagana erum við að vinna í heimasíðunni okkar keramikstudio.is þar sem hægt verður að sjá það sem við erum að gera en ef þú hefur áhuga á að skoða þá er það alveg velkomið.

   Kveðja, Hanna

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*