Bleikur marengs … algjör bomba

Bleikur marengs....algjör bomba

 • Servings: 10 - 12
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessa köku fékk ég hjá Önnu Kristínu vinkonu minni og er hún bæði bragðgóð og falleg á borði.  Ég er búin að baka hana nokkrum sinnum með misjöfnum árangri.  Fyrst bakaði ég hana of mikið og þá varð það bleika í marengsinum mjög brúnt en eftir að hafa lækkað bökunarhitann hefur bleiki liturinn haldist betur þó svo að brúni tónninn sé aðeins með. Í eitt skiptið var ég í tímaþröng – mæli ekki með að sleppa því að láta marengsinn kólna í ofninum.  Kakan hefur því verið misfalleg en í öll skiptin bragðaðist hún mjög vel. Stundum hef ég laumað nokkrum dropum af bleikum matarlit í rjómann – þá verður hún extra falleg.  Þessi snilldarkaka er tilvalinn eftirréttur….. algjör bomba.

Forvinna

Það má bæði búa til berjasósuna og marengsbotnana daginn áður. Best að setja kökuna saman sama dag og hún er borin fram.

Hráefni

 • 90 g hindber eða rifsber
 • 1½ msk flórsykur
 • 8 egg
 • Sjávarsalt – á hnífsoddi
 • 400 g strásykur
 • 300 g ávextir eins og t.d. jarðarber, hindber eða brómber
 • 6 dl rjómi
 • 400 g grísk jógúrt
 • Ögn af bleikum/rauðum matarlit (má sleppa)

 

Verklýsing

 1. Berin maukuð með gaffli – flórsykri bætt við. Sett í sigti og fræin sigtuð frá – berjasósan lögð til hliðar
 2. Ofninn stilltur á 110°C – blástur
 3. Eggjahvítur settar í skál ásamt saltinu og þeyttar aðeins. Sykri bætt við – litlu í einu. Þegar sykurinn er allur kominn er eggjahvítan þeytt á miklum hraða í 6 – 8 mínútur
 4. Bökunarpappír settur í tvær ofnskúffur og 24 cm (þvermál) hringir teiknaðir. Marengsdeiginu skipt jafnt á báða hringina og dreift úr því
 5. Skeið notuð til að taka smá af berjasósunni og stinga inn í kantana á deiginu. Ágætt að nota botninn á skeiðinni til að dreifa betur úr.
 6. Bakað í 1 klukkustund – látið kólna í ofninum
 7. Rjómi þeyttur og grískri jógúrt bætt við með sleikju. Berjasósunni blandað saman við.  Ef rjóminn á að vera aðeins meira bleikur er smá af matarlit sett út í
 8. Ávextir skornir niður
 9. Annar botninn settur á fat og helmingur af rjóma settur ofan á… ávöxtum dreift yfir
 10. Hinn botninn settur ofan á og afgangi af rjómanum smurt yfir
 11. Skreytt með berjum, ávöxtum og/eða myntu

Það má bæði nota rifsber eða hindber

Marengs þeyttur 

Holur gerðar með skeið og aðeins af safa sett í þær – ágætt að loka svo aðeins  

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*