Stökkir og brakandi kjúklingabitar með sætsterkri sósu

Stökkir og brakandi kjúklingabitar með sætsterkri sósu

  • Servings: 4 - 6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Við fengum svipaðan rétt á veitingastað og ákváðum að prófa okkur áfram eftir að hafa fengið að vita um helstu hráefnin í sósunni. Rétturinn er djúpsteiktur eins og svo margt hjá okkur þessa dagana.  Það er ekki flókið að djúpsteikja og hægt er að nota venjulegan pott eða djúpa pönnu. Djúpsteiktur matur er klárlega fitu- og hitaeiningamikill en mér finnst rýrnun á olíunni vera minni en ég bjóst við.  Þessi réttur er brakandi góður og á vel við sem smáréttur eða aðalréttur með fersku salati… svona til að friða samviskuna.

 

Hráefni

Sætsterk sósa

  • 2 hvítlauksgeirar – saxaðir smátt eða pressaðir
  • 1 msk rifið engifer – ef notað er lífrænt þarf ekki að flysja það
  • 2 dl sykur
  • 1 stk chili – fræhreinsað og skorið smátt
  • 1 dl sojasósa
  • ½ dl vatn – aðeins meira ef sósan verður of þykk

 

Kjúklingur

  • 750 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2½ dl hveiti (½ dl í eggjahræruna)
  • 1 tsk garlic peppar
  • ½ msk paprikuduft
  • 1 tsk Herbs de Provence
  • 1 egg
  • 1 dl vatn
  • ½ tsk salt
  • Olía sem þolir vel hita – t.d. Sólblómaolía

 

Meðlæti

  • Jarðhnetur eða cashewhnetur
  • Vorlaukur – skorinn í þunnar sneiðar
  • Sneið af lime
  • Soðin hrísgrjón

 

Verklýsing

Sósa

  1. Allt sett í pott og hitað á vægum hita.  Látið malla á meðan rétturinn er búinn til
  2. Ef sósan er látin malla lengi getur hún orðið svolítið þykk – þá má þynna hana með vatni

 

Kjúklingur

  1. Kjúklingur skorinn niður í bita – frekar litla
  2. 2 dl af hveiti ásamt kryddi (ekki saltið) sett í plastbox með loki – hrist saman
  3. Egg og vatn sett í skál.  ½ dl af hveiti og salti blandað saman við – hrært saman
  4. Olía sett í pott og hituð – ofninn hitaður í u.þ.b. 50°C.  Olían þarf að vera orðin vel heit en ef hún verður of heit geta bitarnir brunnið áður en þeir eru steiktir í gegn
  5. Kjúklingabitum dýpt í eggjahræruna og síðan í plastboxið.  Fínt að setja nokkra bita í einu – lokið sett á og hrist.
  6. Kjúklingabitarnir teknir úr boxinu og djúpsteiktir í u.þ.b. 3 mínútur. Þeir eru lagðir á eldhúspappír og olían látin renna aðeins af þeim.  Bitarnir settir á fat og inn í ofn á meðan lokið er við að djúpsteikja þá alla
  7. Borið fram með sósunni, hrísgrjónum, hnetum og sneiðum af vorlauk.  Gott að kreista aðeins lime yfir

Ath. varðandi kryddblönduna í boxinu

Það er misjafnt hversu vel kryddblandan nýtist.  Stundum er hún ekki nóg og þá þarf aðeins að bæta við.  Þegar búið er að hrista boxið nokkrum sinnum með kjúklingabitinum myndast kögglar í blöndunni en þá er gott að sigta þá frá áður kjúklingabitarnir eru hristir við kryddblönduna

Ath. varðandi steikinguna

Þar sem kjúklingabitarnir eru ekki stórir þarf ekki að setja mikið af olíu í pottinn.  Það er líka ágætt að fara sparlega með olíuna þar sem eingöngu er hægt að nota hana einu sinni. Venjulega nota ég olíu tvisvar.  Ástæðan er sú að kryddblandan, sem kjúklingnum er velt upp, blandast saman við olíuna og verður hún því frekar óhrein.  Ágætt að nota sigti reglulega til að ná kryddinu upp – annars er hætta á að það brenni.

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*