Oreo ostakaka með karamellusósu
Uppruni
Þessi uppskrift er heimatilbúin og samstarfsverkefni mitt og oreodömunnar á heimilinu. Ég get ekki sagt að ég sé mjög hrifin af Oreokexi en lét til leiðast að reyna að baka ostaköku með oreokexi í botninum. Kakan heppnaðist bara ágætlega og var ljúffeng. Það má alveg útfæra hana á annan hátt og sleppa karamellusósunni og hnetunum. Þá er hægt að þeyta rjóma og blanda muldu Oreokexi saman við – sprauta rjómatoppum ofan á og skreyta með Oreokexkökum.
Forvinna
Best er að baka kökuna daginn áður en svona upp á fínheitin þá er hún fallegust þegar karamellusósan er nýkomin yfir.
Hráefni
Botn
- 2 pakkar dökkt oreokex – taka kremið af (gott að nota Oreo Double Creme – þá er meira krem)
- 80 g smjör – brætt
Fylling
- 400 g rjómaostur (Philadelphia) – við stofuhita
- 2 dl sýrður rjómi – við stofuhita
- 4 egg – við stofuhita
- ½ tsk salt
- 2 tsk vanillusykur
- Kremið úr kexinu
- 1 dl sykur
Karamella
- Frábær karamellusósa
- U.þ.b. 1 dl af söltuðum jarðhnetum
Verklýsing
Botn
- Kremið skafið af kexinu og sett til hliðar
- Kexið er mulið í matvinnsluvél eða í morteli
- Smjör brætt og blandað saman við mulninginn. Bökunarpappír settur í botninn á 22 – 23 cm bökunarformi og mulningnum dreift jafnt á botn og hliðarnar. Best að nota fingurna til að þjappa mulningnum vel saman. Geymt í kæli á meðan fyllingin er útbúin
Fylling
- Ofninn hitaður í 160°C (yfir- og undirhiti)
- Rjómaostur, kremið úr kexinu, sykur, salt og sýrður rjómi – hrært saman
- Eggi bætt við einu í einu og því næst vanillusykri. Allt hrært saman þar til blandan verður slétt og fín. Sett í bökuformið yfir kexmulninginn
- Bakað í ofni í rúma klukkustund (u.þ.b. 65 – 70 mínútur) – gott að láta kökuna kólna á grind og síðan er hún sett inn í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt. Stundum myndast sprunga í kökuna en hana má fela með hnetumulningi og karamellusósunni
Karamella – sett á samdægurs
- Karamella – hana má búa til daginn áður eða nokkrum dögum áður og geyma í krukku í kæli. Áður en hún er sett yfir kökuna er betra að velgja hana aðeins en samt ekki of mikið. Ef notuð er uppskriftin frábær karamellusósa nægir að nota hálfa uppskriftina
- Hnetum stráð yfir hugsanlegar sprungur sem hafa myndast í kökunni. Karamellusósu hellt yfir og skreytt með jarðhnetum. Þegar kakan er geymd í kæli þarf ekki að setja plast yfir hana
Geymsla
Kakan geymist vel í nokkra daga í kæli.
Fyllingin
Fyrir og eftir bakstur
Sprunga hefur myndast yfir nóttina
Hnetum dreift vel yfir sprunguna og karamellusósu hellt yfir