Ferskt og gott salat með halloumi osti og pistasíupestói
Uppruni
Salatið fékk ég hjá Guðrúnu og þótti mér það vera sérstaklega gott og frískandi. Salatið má borða eitt og sér en það passar líka vel með súpu og brauði.
Forvinnsla
Halloumi ostinn má grilla/steikja eitthvað áður og upplagt að útbúa pistasíupestóið daginn áður.
Hráefni
Pistasíupestó
- 1 – 2 hvítlauksrif
- 30 – 40 g klettasalat
- 35 g pistasíuhnetur
- 1 msk sítrónusafi
- 125 ml olía
- Salt og pipar
- Parmesanostur (má sleppa)
Salat
- 250 g halloumi ostur (má nota fetaost eða geitaost í staðinn)
- 150 g sykurbaunir
- 120 – 250 g salatblanda – smekksatriði
- ½ – 1 agúrka – skorin í sneiðar/bita
- 1 avókadó/lárpera – skorið í bita (gott að kreista aðeins sítrónu yfir – þá dökna bitarnir síður)
- 1 poki radísur – skornar í sneiðar
- 2 vorlaukar – skornir í sneiðar
Verklýsing
Pistasíupestó
- Hvítlaukur, klettasalat og pistasíur mulið saman í matvinnsluvél
- Sítrónusafa bætt við og blandan maukuð betur saman – olíu hellt rólega saman við
Salat
- Haloumi ostur skorinn í sneiðar og þær steiktar í olíu á pönnu (betra að pannan sé vel heit) þar til fallegur litur er kominn á báðar hliðar – u.þ.b. 2 mínútur á hvorri hlið. Osturinn skorinn í bita
- Sykurbaunirnar soðnar: Vatn sett í pott og látið sjóða – baunirnar settar út í og látnar sjóða í 2 mínútur. Vatninu hellt af baununum og þær kældar með köldu vatni – vatnið látið renna af
- Öllu hráefni blandað saman í stórri skál og pistasíupestói dreift yfir