Steiktur þorskhnakki með sellerírótarmauki og rósmarínblöndu

Steiktur þorskhnakki með sellerírótarmauki og rósmarínblöndu

 • Servings: 4 – 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi réttur er heimatilbúinn en hugmyndin er sprottin frá uppskrift í erlendu matarblaði að góðri súpu sem ég bjó einu sinni til.  Rétturinn er einfaldur og hægt er að forvinna margt þannig að steikingin verði aðeins eftir.  Fallegur og sérstaklega góður réttur sem gaman er að hafa í matarboði (ég ber hann alltaf fram tilbúinn á diskinn fyrir hvern og einn).

Forvinna – ábending

Þorskhnakkinn er látinn liggja í saltvatni í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt. Sellerírótarmaukið má búa til daginn áður. Kryddblönduna má laga nokkrum klukkustundum áður en rétturinn er borinn fram. Ef hann á að vera í matarboði er gott að vera búinn með brasið og steikja fiskinn eitthvað áður og setja í eldfasta fatið. Ef hann er orðinn alveg kaldur, þegar hann er settur í ofninn, þarf hann aðeins lengri tíma í ofninum.

Hráefni

Þorskhnakki 

 • 600 – 800 g þorskhnakki
 • 30 g saltflögur
 • 500 ml vatn
 • Brauðrasp (má sleppa)
 • Olía til steikingar og aðeins af smjöri

Sellerírótarmauk

 • 600 – 700 g sellertírót –  flysjuð, hreinsuð og skorin í litla bita
 • 2 kartöflur – flysjaðar og skornar í litla bita
 • 2 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
 • 1 msk smjör
 • ½ msk fínt rifinn sítrónubörkur
 • ½ msk sítrónusafi
 • ½ dl sýrður rjómi
 • Salt og pipar

Rósmarínkryddblanda

 • 2 msk saxað ferskt rósmarín
 • 2 msk rifinn parmesanostur
 • ½ msk sólblómafræ (má sleppa)
 • Smjör/olía til steikingar
 • 1 rauðlaukur – skorinn í þunnar sneiðar
 • Börkur af einni lífrænni sítrónu – rifinn fínt
 • 160 – 180 g fitulítið beikon
 • Salt og nýmalaður pipar
 • Chiliflögur (má sleppa)

Verklýsing

Þorskhnakki

Ath: Með því að láta fiskinn liggja í saltvatni verður hann þéttari í sér og dettur síður í sundur þegar hann er steiktur.  Fiskurinn verður einnig mátulega saltur og þarf því ekki að salta hann meira.

 1. Vatn og salt sett í ílát – hrært aðeins í þannig að saltið leysist upp
 2. Þorskhnakkinn lagður í saltvatnið og látinn liggja í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt
 3. Fiskurinn tekinn úr vatninu og látið renna af honum – það má gjarnan gera töluvert áður en hann er matreiddur – geymdur á bakka/diski í kæli
 4. Fiskurinn skorinn í hæfilega stóra bita – ég hef haft þá u.þ.b. 100 – 120 g
 5. Ofninn hitaður í 150°C (yfir- og undirhiti)
 6. Það getur verið gott að velta bitunum upp úr brauðraspi en það er ekki nauðsynlegt
 7. Olía sett á heita pönnu.  Fiskurinn snöggsteiktur eins og verið sé að loka nautakjöti – betra að steikja bara tvo bita í einu – til að fá fallegan lit á allar hliðar án þess að fiskurinn steikist of mikið. Pannan þarf að vera vel heit, bitarnir lagðir á pönnuna og snöggsteiktir. Setja örlítið af smjöri – gefur gott bragð
 8.  Bitarnir lagðir í eldfast mót og inn í heitan ofn í u.þ.b. 8 – 11 mínútur. Steikingin er smekksatriði en varast skal að ofsteikja fiskinn. Ath. þar sem hann er nætursaltaður er hann þéttur í sér þrátt fyrir að vera hæfilega eldaður

Sellerírótarmauk

 1. Sellerírótar- og kartöflubitarnir settir í pott ásamt rjómanum/mjólkinni, suðan látin koma upp og soðið (með lokið ofan á) við vægan hita í u.þ.b. 15 mínútur  eða þar til bitarnir eru orðnir mjúkir
 2. Smjör, sítrónubörkur, sýrður rjómi og sítrónusafi sett í matvinnsluvél eða í öflugan blandara ásamt soðna sellerírótarsoðinu (bæði vökvan og bitana) – allt maukað
 3. Maukið sett í pott, saltað og piprað eftir smekk. Lagt til hliðar

Rósmarínkryddblanda

 1. Ofninn hitaður í 180°C. Beikonstrimlar settir í ofnskúffu með bökunarpappír – látið vera í ofninum í u.þ.b. 10 mínútur. Snúa beikoninu við og fylgjast með að það brenni ekki. Tekið út þegar það er tilbúið og sett á eldhúspappír.  Fitan látin renna af – skorið í litla bita
 2. Smjör hitað á pönnu og laukhringir steiktir í smöri/olíu þar til þeir fá smá lit – passa samt að brenna ekki. Það eyðileggur bragðið ef smjörið brennur. Laukhringirnir teknir af pönnunni og lagðir á eldhúspappír
 3. Allt hráefnið sett í skál – blandað saman

Samsetning

 1. Sellerírótarmaukið hitað í pottinum.  Mér finnst fallegt að bera þennan rétt fram í víðum súpuskálum og set því aðeins af sellerírótarmauki í hverja skál
 2. Fiskurinn lagður ofan á og rósmarínkryddblöndu stráð yfir
 3. Einnig má bera fram á stóru fati þar sem sellerírótarmaukið er sett fyrst á fatið.  Fiskbitar lagðir ofan á og að lokum er skreytt með rósmarínkryddblöndunni

Ath: Stundum verður afgangur af rósmarínkryddblöndunni og er þá tilvalið að nota blönduna í pastarétt eða ofan á hamborgarann við tækifæri.

IMG_2883

IMG_9843

IMG_2885

IMG_2882

IMG_2880

IMG_2888

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*