Home » Hægelduð retro nautalundssteik með piparpúrtvínssósu

Hægelduð retro nautalundssteik með piparpúrtvínssósu

Hægelduð steik í leirpotti

  • Servings: 4 - 5
  • Difficulty: meðal
  • Prenta

Uppruni

Nautasteik með bakaðri kartöflu, steiktu grænmeti og piparsósu…. hljómar kannski smá retro.  Mér finnst stundum gaman að útbúa litlar steikur þar sem heil nautalund gerir kröfur um fleiri munna að metta.  Steikin er hægelduð og enn og aftur nota ég leirpottana mína.  Gera má ráð fyrir að það taki u.þ.b. 90 mínútur að kjötið verði tilbúið en tímasetningin er ekki svo heilög því að þegar kjötið er að ná réttum kjarnhita er hitinn lækkaður og potturinn með kjötinu látinn standa í ofninum – þannig helst það heitt án þess að ofeldast.  Fyrir þá, sem kunna að meta rauða nautalund og vilja jafna steikingu, er þessi alveg mögnuð… kjötið verður svo dúnmjúkt og það hreinlega bráðnar í munninum.  Mæli klárlega með að prófa.  Piparpúrtvínssósan er skemmtileg tilbreyting en einnig má bjóða upp á sveppasósu eða bearnessósu

Hráefni

Kjöt

  • 800 – 1000 g nautalund – skorin í bita sem eru 120 – 160 g
  • Svartur pipar mulinn í morteli … fyrir þá sem vilja setja mulinn pipar á hliðarnar

 

Piparpúrtvínssósa

  • 1¾ dl púrtvín (má líka nota brandy eða koníak)
  • 3½ dl nautakraftssoð (nautakraftur og vatn)
  • 2½ dl rjómi
  • 3 – 4 tsk svartur pipar – mulinn í morteli
  • ½ tsk sojasósa
  • 1 – 2 msk sósujafnari (má sleppa)

 

Gulrótarstrimlar

 

Steikt rauðkál

  • Rauðkál – skorið í örþunnar sneiðar
  • Smjör

 

Verklýsing

Kjöt

  1. Ofninn stilltur á 65°C (blástur)
  2. Kjötið snyrt aðeins – sinar skornar frá.  Lundin skorin í bita – gott að miða við að hver biti sé 120 – 160 g.  Kjötbitar lokaðir á báðum hliðum – það má gera á heitri pönnu (ýmist á þurri pönnu eða með örlítið af olíu) eða á grilli.  Mikilvægt í báðum tilfellum að hita grillið eða pönnuna mjög vel.  Pipar settur á hliðarnar – fyrir þá sem vilja. Gott að setja mulinn pipar á lítinn disk og nudda hliðunum ofan í
  3. Kjötbitarnir lagðir í Hönnupott (eða sambærilegan pott) – gott að pipra aðeins (ef ekki var piprað í lið 2).  Kjöthitamæli stungið í miðjuna á einum af kjötbitunum. Lokið sett á og potturinn inn í ofn
  4. Þegar kjarnhitinn er kominn í 52°C er ofninn lækkaður í 55°C og þar getur kjötið verið nánast endalaust án þess að steikjast of mikið.  Kjarnhitinn má alveg fara upp í 55°C. Gera má ráð fyrir að eldunartíminn verði tæplega 2 klukkustundir en má vera lengri
  5. Kjötið tekið úr pottinum og lagt á bretti.   Þar sem kjötið hefur eldast í rólegheitum er ekki þörf á að láta það jafna sig áður en það er borið fram.  Gott að strá saltflögum yfir

 

Piparpúrtvínssósa

  1. Kjötkrafti hellt á pönnuna, sem kjötið var steikt á, og látið sjóða þar til magnið hefur u.þ.b. helmingast
  2. Púrtvín sett á pönnuna (eða í pott ásamt kjötsoðinu af pönnunni) og látið sjóða í nokkrar mínútur þar til vínandinn er farinn. Ef uppgufunin hefur minnkað magnið um helming ætti að vera óþarfi að nota sósuþykkni
  3. Hitinn lækkaður og rjóma bætt við ásamt piparkornum
  4. Sojasósu bætt við og smakkað
  5. Upplagt að hella soðinu, sem kemur af kjötinu, út í sósuna.  Ath. ef sósan er of þunn má bæta við sósujafnara og láta suðuna koma upp

 

Rauðkál

  1. Smjör sett á pönnu og pannan hituð
  2. Rauðkálsstrimlarnir snöggsteiktir

 

Annað meðlæti: Bökuð kartafla og smjör

Ath.  þar sem flestir eru bara með einn ofn í eldhúsinu getur verið smá púsl með eldunina.  Þá er upplagt að forsteikja gulræturnar áður en kjötið er sett inn.  Bökuðu kartöflurnar geta verið með pottinum í ofninum en þá þarf að baka þær eða forsjóða á undan.

Hugmynd að framsetningu

Steikta rauðkálið sett fyrst á diskinn, því næst gulrótarstrimlarnir og að lokum er kjötbiti lagður ofan á.  Bökuð kartafla sett til hliðar og sósu hellt yfir kjötið eða setja bara sósuna fyrst á diskinn… það er alveg smá retro.

 

Ef mulinn pipar er settur á hliðarnar…

Sósa í vinnslu….

 

Viltu skilja eftir athugasemd?

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*