Frábær kransakaka

Frábær kransakaka

  • Servings: U.þ.b. 80 - 100 manns
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessi uppskrift kemur frá mömmu og hefur hún verið bökuð við hátíðleg tækifæri síðustu 25 árin í ýmsum útfærslum. Hún er bragðgóð og ekki eins sæt og þær sem keyptar eru. Yfirleitt hefur kakan verð gerð á hefðbundinn máta en skreytt á  ýmsan hátt. Einu sinni var brugðið út af vananum og gerð kransakaka fyrir gæsun en mynd af henni er líklega ekki birtingarhæf.

Forvinna

Betra að baka kransakökuna einum eða tveimur dögum áður en hún er sett saman og ljúka verkinu daginn fyrir veislu.

Hráefni

Kransakaka

  • 2 kg möndlumassi

    Ath. Það er ekki sama hvaða marsipan er notað. Ég hef verið með það sem fæst í Fjarðarkaupum og þeir pakka sjálfir. Athuga að þetta er kransakökumassi (ekki hjúpmarsipan). Hef notað danska Odense marsipanið, með mismunandi árangri, en þar er sykur- og möndlumagnið mismunandi eftir tegundum. Kökurnar hafa lekið og orðið allt öðruvísi nema þegar ég hef notað marsipanið frá þeim með 63% möndlum – þá hefur það gengið glimrandi vel.

  • 750 g strásykur
  • 4 – 5 eggjahvítur
  • 50 g vatn (má sleppa)

Skreyting

  • Eggjavítur
  • Flórsykur
  • Nokkrir dropar kreistir úr sítrónu
  • Skraut

Verklýsing

Kransakaka

  1. Eggjahvítur og strásykur þeytt saman (ekki eins mikið og marengs) Möndlumassinn hnoðaður með saman við þar til deigið er orðið jafnt (e.t.v. þarf í lokin að hnoða deigið saman á borði). Hnoða þar til hráefnin hafa blandast vel saman en ekki of lengi. Betra er að hnoða ekki nema 1 kg af möndlumassa í einu
  2. Deigið er látið í plast og geymt í kæli yfir nótt.  Ef deigið er ekki kalt þegar það er rúllað út og bakað er frekar hætta á að kakan springi við bakstur. Því getur verið gott að setja deigið, sem ekki er verið að nota, í kæli í stað þess að hafa það við stofuhita.
  3. Ofninn hitaður í 175 – 180°C
  4. Deigið er rúllað í lengjur og sett í sérstaka kransakökuhringi – form/mót.
  5. Ef eitthvað er eftir af deiginu er upplagt að rúlla því einnig í lengjur og skera þær niður í litla bita. Einnig má búa til hanka eða annað skraut úr afganginum – gæta þess að þeir þurfa styttri bökunartíma
  6. Bakað í 15 mínútur – mikilvægt að fylgjast vel með að ekki brenni
  7. Ath. Gott ráð til að kökurnar springi síður er að spreyja eða pensla vatni yfir þær í ofninum. Þó að hringirnir líti ekki fullkomlega út við fyrstu sýn er margt hægt að fela þegar skreytt er með glassúrnum

 

Skreyting – glassúr

  1. Eggjahvítur og flórsykur – þeytt saman
  2. Nokkrum dropum úr sítrónu bætt við
  3. Þegar blandan er orðin létt og hvít er ágætt að setja hana í lítinn plastpoka og loka vel fyrir. Klippa lítið gat í eitt hornið og skreyta hvern hring fyrir sig – látið þorna
  4. Hringunum er svo tyllt ofan á hvern annan í stærðaröð

Kaupi alltaf kransakökumassann í Fjarðarkaupum

img_1600

 

kransakaka

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*